Innlent

Sló mann ítrekað með glerflösku í höfuðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin átti sér stað í húsnæði skammt frá ráðhústorginu á Akureyri.
Árásin átti sér stað í húsnæði skammt frá ráðhústorginu á Akureyri. Vísir/Auðunn
Fertugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa ráðist á mann á svipuðum aldri í húsnæði í miðbæ Akueyrar aðfaranótt 1. maí árið 2013.

Er hinum ákærða gefið að sök að hafa hrint manninum þannig að hann féll með höfuðið á borðbrún og síðan á gólfið. Í framhaldinu á hinn fertugi að hafa slegið manninn ítrekað með glerflösku í höfuðið þar sem hann lá.

Afleiðingarnar voru þær, að því er segir í ákærunni, að sá sem fyrir árásinni varð hlaut ótilfært höfuðkúpubrot aftan á höfði vinstra megin, skurð í hársverði sem sauma þurfti saman með tveimur sporum, tvo 2-3 sm langa skurði vinstra megin á höfði og hruflsár á vinstri olnboga og lendhrygg.

Sá er fyrir árásinni varð fer fram á 600 þúsund krónur í skaðabætur í einkaréttarkröfu á hendur árásarmanninum. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 10. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×