Innlent

Vald og ábyrgð á skipaninni fari saman

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Karl Axelsson mun verma einn af stólunum í Hæstarétti.
Karl Axelsson mun verma einn af stólunum í Hæstarétti. vísir/stefán
Ef ákvörðun um skipan dómara á að vera í höndum annarra en ráðherra væri eðlilegast að stjórnarskrárbreyting kæmi til. Enda ber ráðherra ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum samkvæmt stjórnarskrá.

Þetta segir Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. „Ef fólk kemst að þeirri niðurstöðu að þessi ákvörðun eigi ekki að vera í höndum pólitíkusa, að ráðherra eigi ekki að vera að vasast í þessu, þá verða menn að gera miklu meiri grundvallarbreytingar,“ segir Hafsteinn.

Karl Axelsson hefur verið skipaður hæstaréttardómari. Dómnefnd mat Karl hæfastan en aðrir umsækjendur voru Ingveldur Einarsdóttir, starfandi hæstaréttardómari, og Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði á Alþingi í síðustu viku að fullt tilefni væri til að endurskoða reglur um skipan dómara. Hafsteinn Þór sat í nefnd um nýtt millidómsstig. Hann segir að nefndin hafi einnig kynnt ráðherra tillögu að reglum um skipan dómara, bæði á nýju millidómsstigi en líka á öðrum stigum.

Hafsteinn Þór Hauksson
Sú tillaga felur í sér að nefnd skili umsögn um hæfi umsækjenda svo ráðherra geti tekið upplýsta ákvörðun. Ráðherrann ákveður svo hver hlýtur skipun og í tilfelli hæstaréttardómara skal bera þá ákvörðun undir Alþingi. „Í rauninni kæmu þá báðir handhafar ríkisvaldsins, aðrir en dómsvaldið sjálft, að skipun í dómaraembættið,“ segir Hafsteinn. Hann segir ástæðulaust að vantreysta Alþingi. Til dæmis sé reynslan af því að Alþingi kjósi umboðsmann Alþingis góð.

Í núverandi kerfi skilar nefndin umsögn um það hver hæfasti einstaklingurinn í embættið er. Ráðherra er bundinn af ákvörðun nefndarinnar nema að hann fái stuðning þingsins til að breyta henni. „Við töldum eðlilegast að valdið til að taka ákvörðun um það hverjir taka sæti í dóminum væri í höndum þess sem ber ábyrgð á ákvörðuninni, þannig að ekki sé skilið á milli ábyrgðar og valds. Núverandi kerfi gerir það í raun,“ segir Hafsteinn. Nefndin bindi hendur ráðherrans, en ráðherrann beri ábyrgðina, bæði lagalega og pólitíska.

Skúli Magnússon
Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, segir það afstöðu félagsins að ef gerðar verði breytingar á kerfinu þurfi að vanda til verka. Slíkar breytingar krefjist umræðu og samráðs. Hann segir að skoða megi aukna aðkomu þingsins að þessum ákvörðunum. „En ef þingið á að hafa meira um skipun dómara að segja þá verður að hugsa það mál mjög vandlega, hvernig sú aðkoma á að vera og hvernig þingið ætlar að taka á því máli. Vegna þess að auðvitað er mikil hætta á að sú umræða myndi fara um víðan völl og myndi hafa neikvæð áhrif á ásýnd og trúverðugleika dómskerfisins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×