Fótbolti

Frábært að fjölskyldan geti horft á mig heima í stofunni

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Emil Hallfreðsson.
Emil Hallfreðsson. fréttablaðið/getty
„Þetta er að skella á núna eftir rúman mánuð í æfingabúðum svo maður er spenntur fyrir því að byrja. Við eigum leik í bikarnum á laugardaginn áður en við spilum fyrsta leik deildarkeppninnar á heimavelli gegn Roma viku seinna,“ sagði Emil Hallfreðsson, leikmaður Hellas Verona og íslenska landsliðsins, þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til hans í gær.

Emil var sáttur að heyra af því að ítalski boltinn verður á skjám landsmanna í vetur en sýnt verður frá öllum leikjum Hellas Verona í vetur á Stöð 2 Sport.

Eins og staðan er í dag er Emil eini íslenski leikmaðurinn í deildinni en þetta gerir það að verkum að auðveldara er fyrir fjölskyldu og vini að fylgjast með.

„Þetta kom mér reyndar á óvart en það er frábært að heyra að þetta verði á skjánum heima í vetur. Þetta er það sterk og skemmtileg deild að hún á heima í sjónvarpinu á Íslandi. Svo er frábært að fjölskyldan geti horft á þetta heima í stofunni,“ sagði Emil sem tók undir að pressa væri á honum fyrir veturinn.

„Er það ekki? Það verður meiri pressa á mér ef þetta er á skjánum heima,“ sagði Emil léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×