Innlent

Ný reglugerð eykur öryggi og umferð

Þórgnýr Einar Albersson skrifar
Allur staðalbúnaður hjóla þarf að vera í lagi.
Allur staðalbúnaður hjóla þarf að vera í lagi. fréttablaðið
„Reglugerðin sem nú er í gildi, frá 1994, er barn síns tíma. Margt hefur breyst,“ segir Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, um nýja reglugerð um hjólreiðar á Íslandi sem er í vinnslu. Drög að reglugerðinni liggja nú í innanríkisráðuneytinu og hafa gert frá því í desember. Þórólfur segir bráðum von á fundi með innanríkisráðuneyti um drögin og í kjölfarið verði þau kynnt og óskað eftir umsögnum.

Þórólfur Árnason
„Reglugerðin verður frekar stutt og var sú leið valin að hafa reglurnar ekki íþyngjandi fyrir hjólreiðafólk nema þar sem öryggishagsmunir væru áberandi,“ segir Þórólfur. „Í þessu sem öðru gildir ákveðin skynsemi. Það á ekki að fara að draga úr notkun reiðhjóla þegar við erum á sama tíma að bæta hjólreiðastíga og auka öryggi hjólreiðamanna.“

Árni Davíðsson, formaður umsagnarnefndar Landssamtaka hjólreiðamanna, segir reglugerðina komna til ára sinna og ríka þörf á uppfærslu. „Í Evrópu er til dæmis viðurkennt að hafa glit á hliðum hjólbarðanna í stað glits á teinum, hér er skylda að vera með glit á teinum,“ segir Árni.

Sjálfur segist Þórólfur hjóla nær daglega til vinnu og þykir honum það góður ferðamáti. Hann segir ýmislegt hafa batnað í öryggi hjólreiðamanna og segir reglugerðina taka mið af því að hjólreiðamenning sé að skapast hér á landi.

Einar Guðmundsson, formaður Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna, segir drögin sem nú liggja fyrir meðal annars fela í sér aukna aðgreiningu á tegundum hjóla og brotthvarf keðjuhlífar og láss af lista yfir nauðsynlegan öryggisbúnað en eins og Fréttablaðið greindi frá í gær segir Brautin aðeins fjórtán prósent hjóla á Íslandi seld með tilskyldum öryggisbúnaði, þó segir Einar barnahjól frekar með öryggisbúnaðinn í lagi. „Ástandið er mun betra þar.“

Þórólfur heldur að innflytjendur hjóla reyni eftir bestu getu að hafa allan búnað á hjólum. „Ýmis keppnishjól eru þó væntanlega seld án búnaðar. Menn eru ekki tilbúnir að selja hjól með búnaði sem verður tekinn af strax aftur.“

Einar segir niðurstöðurnar þó nákvæmar. Hann segir geta verið að einhverjir selji hjól með næstum öllum tilskyldum búnaði en segir að öll sjö atriði eigi þó að vera í lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×