Innlent

Fangar bíða í ár eftir að hefja afplánun

Ingvar Haraldsson skrifar
Fangelsismálastjóri segir fjármuni vanta til að vinna á biðlistum.
Fangelsismálastjóri segir fjármuni vanta til að vinna á biðlistum. vísir/gva
„Þetta er alveg fáránleg staða,“ segir Páll Winkel Fangelsismálastjóri um að þeir sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar hér á landi þurfa að meðaltali að bíða í rúmt ár þar til afplánun hefst.

Biðtímin hefur lengst síðustu ár. Árið 2012 þurftu fangar að meðaltali að bíða í 350 daga en í 383 daga í fyrra. Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi. Búist er við að biðtíminn muni lengjast enn frekar á þessu ári.

„Refsingar hafa þyngst á síðustu árum og það eru takmörk fyrir því hvað kerfið getur tekið á sig í niðurskurðarárferði,“ segir Páll.

Páll vonast þó til að biðtíminn muni styttast á ný þegar fangelsið á Hólmsheiði verði tekið í notkun vorið 2016 gegn því að fjármagn fáist til að hafa fangelsið í fullum rekstri. Páll kallar einnig eftir því að samfélagsþjónustu og rafrænu eftirliti verði beitt í auknum mæli.

Í svari innanríkisráðherra kom einnig fram að rannsóknir bentu til þess að 60 prósent fanga ættu við vímuefnavanda og í þeim hópi skimuðust 75 prósent með athyglisbrest og ofvirkni.

Alls starfa tveir sálfræðingar og tveir félagsráðgjafar hjá Fangelsismálastofnun sem sinna um 600 manns. Að mati Páls vantar fjármuni til þess að taka á þeim vandanum. „Maður er hreinlega hálf leiður yfir því að ekki sé hægt að gera betur,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×