Innlent

Ná betur til kvenna í vímuefnaneyslu

viktoría hermannsdóttir skrifar
Svala er verkefnastýra Frú Ragnheiðar. Bíllinn keyrir um fimm daga í viku frá 18-21. Nýlega var tekinn í notkun notendasími sem hægt er að hringja í og biðja um að láta hitta sig.
Svala er verkefnastýra Frú Ragnheiðar. Bíllinn keyrir um fimm daga í viku frá 18-21. Nýlega var tekinn í notkun notendasími sem hægt er að hringja í og biðja um að láta hitta sig. Fréttablaðið/Ernir
„Við mætum þeim þar sem þau eru stödd. Að þau upplifi að rýmið í Frú Ragnheiði sé fyrir þau, að þar eru þau ekki dæmd, þurfa ekki að upplifa skömm og geta talað um þessa hluti á mjög eðlilegan hátt. Þannig geta þau treyst okkur fyrir spurningum sem liggja á þeim og spjallað við okkur um vímuefnaneysluna og bara lífið,“ segir Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, skaðaminnkandi verkefnis á vegum Rauða krossins í Reykjavík.

Verkefnið hefur verið starfrækt frá árinu 2009 og hefur þann tilgang að ná til jaðarhópa samfélagsins sem erfitt reynist að nálgast, eins og heimilislausra og einstaklinga í miklum fíknivanda, og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu og almenna heilsuvernd í þeirra nærumhverfi. Um 450 einstaklingar hafa nýtt sér þjónustuna.

Svala segir fjölgun vera á meðal þeirra sem nýta sér þjónustuna en þau viti þó ekki hvort hópurinn sé að stækka eða þau séu að ná til fleiri. Þjónustan er starfrækt fimm sinnum í viku frá klukkan 18 til 21 og fer á ákveðna staði til þess að hitta fólk þar sem það getur fengið heilbrigðisaðstoð og sótt sér hreinan sprautubúnað.

Sjá einnig:Virðing fyrir fíklum lífsnauðsyn

Í janúar var tekin upp ný þjónusta, notendasími, þar sem hægt er að hringja og biðja um að láta hitta sig á ákveðnum stöðum. Að sögn Svölu hefur það skilað miklu árangri. „Þessi þjónusta hefur mest verið notuð af ungum konum og nær eingöngu af konum. Það er mikið fagnaðarefni að vera komin með tæki sem nær til kvenna, hingað til hafa um 60 prósent þeirra sem leita í Frú Ragnheiði verið karlmenn þannig að við erum mjög ánægð að vera komin með tæki sem nær til kvenna.“

Svala segir Frú Ragnheiði hafa skilað árangri, meðal annars í fækkun á HIV-smitum á meðal fólks sem sprautar vímuefnum í æð. „Það hefur orðið gríðarleg lækkun. Á árunum 2009 til 2012 voru 34 einstaklingar sem smituðust af HIV úr þessum hópi, en 2013 og 2014 var aðeins einn á ári sem smitaðist af HIV. Það bendir allt til þess að Frú Ragnheiður hafi haft gríðarlega mikil áhrif á viðhorf og gildi fólks sem sprautar vímuefnum í æð, en fræðslugildið er eitt af aðalmarkmiðum okkar. Að fræða fólk um skaðaminnkandi leiðir í sprautunotkun og gefa þeim tækifæri á að taka ábyrgð á eigin vímuefnaneyslu. Það hefur til dæmis orðið mikil aukning í að fólk komi til okkar og skili nálaboxum sem við förum svo með í förgun.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×