Innlent

Aldrei fleiri stelpur í einu í rennismíðinni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í tilefni fréttaflutningsins komu þær saman í gær, stúlkurnar í málmsmíðadeildinni, (frá vinstri) Kristín Ósk Björnsdóttir, Ingibjörg Sölvadóttir, Hafdís María Svanberg Óskarsdóttir, Álfheiður Kristín Harðardóttir, Rósa Stella Guðmundsdóttir og Erla Sóley Heide Sævarsdóttir.
Í tilefni fréttaflutningsins komu þær saman í gær, stúlkurnar í málmsmíðadeildinni, (frá vinstri) Kristín Ósk Björnsdóttir, Ingibjörg Sölvadóttir, Hafdís María Svanberg Óskarsdóttir, Álfheiður Kristín Harðardóttir, Rósa Stella Guðmundsdóttir og Erla Sóley Heide Sævarsdóttir. Fréttablaðið/Ernir
Fimm ungar konur stunda í vetur nám í rennismíði í Borgarholtsskóla og ein nám í stál- og blikksmíði.

Aldrei hafa þar fleiri stúlkur stundað þetta nám í einu, segir Aðalsteinn Ómarsson, kennslustjóri í málm- og véltæknideild skólans.

„Jú, þetta er vissulega óvenjulegt,“ segir Aðalsteinn. „En það hefur alltaf verið svona eins og ein í þessu. Í blikksmíði útskrifaðist ein fyrir svona þremur árum, en þetta hefur verið svolítið karlafag.“

Aðalsteinn ÓmarssonFréttablaðið/Ernir
Tilviljun ræður því nú að mati Aðalsteins hversu margar stúlkur raðast í námið í einu. Það, og fagið sjálft, sé hins vegar ekkert frekar fyrir karla en konur.

„Þetta hentar öllum,“ segir Aðalsteinn og bendir á að vélarnar séu tölvustýrðar. Í kennslustofunni er hann með dæmi um lokaverkefni í rennismíði og aðra smíðisgripi, þar á meðal forláta taflmenn úr ryðfríu stáli, sannkallaða völundarsmíð. „Svo eigum við bara eftir að finna fórnarlömb til að smíða sjálft taflborðið.“

Stúlkurnar vinna allar meira og minna með námi sínu og bera því bara ágætlega söguna að starfa í fyrirtækjum sem hafa að stærstum hluta verið karlavinnustaðir til þessa.

Karlrembutal sé fátítt þótt vissulega hafi komið fyrir að þær hafi fengið að heyra einhverjar glósur. 

„Ég var einu sinni spurð að því af hverju ég væri ekki einhvers staðar að steikja franskar?“ segir Erla Sóley Heide Sævarsdóttir, en bætir um leið við að slíkt sé frekar fátítt. Almennt sé ungum konum tekið vel á vinnustað, þótt unnin séu störf sem einhvern tímann hafi verið hefðbundin karlastörf. 

Stúlkurnar komu saman í rennismíðastofunni í gær ásamt Ellerti Danelíussyni kennara sínum. Fréttablaðið/Ernir
Taflmennirnir eru lokaverkefni sem unnið var í rennismíði í Borgarholtsskóla. Fréttablaðið/Ernir
Flestar kannast þó við að hafa heyrt einhverjar athugasemdir, stundum miður skemmtilegar.

Svo geta stúlkurnar líka vel svarað fyrir sig ef svo ber undir. Ingibjörg Sölvadóttir, rifjar upp atvik úr vinnunni í Straumsvík þar sem samstarfsmaður fékk að vita að hún ætti að sinna verkum sem annar karl hafði verið að eiga við en þurft frá að hverfa.

„Hvað heldur þú að einhver kerling geti gert þetta? sagði þessi ónefndi maður. Og ég svaraði: Nú, þú ert algjör kerling og getur samt gert þetta.“

Vinir og kunningjar eru stundum hissa á námsvalinu, en taka því samt vel. „Maður heyrir stundum hvort það séu bara ekki karlar sem fara í þetta nám, en svo er manni bara hrósað og sagt að þetta sé flott hjá manni,“ segir Álfheiður Harðardóttir.

Aðalsteinn segist fagna því að ungt fólk sæki í námið hjá honum, jafnt strákar sem stelpur. Nóga vinnu sé að hafa í þessum geira og skortur á fólki á sumum sviðum, svo sem í blikksmíði.

„Núna er í þessu fullt af flottum krökkum og þessar stelpur hér eru rosaflottar. Ég á eftir að sakna þeirra þegar þær klára,“ segir hann.

Stúlkurnar í málmsmíðinni í Borgó

Konurnar ungu sem stunda nú nám í rennismíði og stál- og blikksmíði í Borgarholtsskóla eru Álfheiður Kristín Harðardóttir 19 ára (rennismíði), Erla Sóley Heide Sævarsdóttir 24 ára (stálsmíði og blikksmíði), Hafdís María Svanberg Óskarsdóttir 24 ára (rennismíði), Ingibjörg Sölvadóttir 26 ára (rennismíði), Kristín Ósk Björnsdóttir 18 ára (rennismíði) og Rósa Stella Guðmundsdóttir 21 árs (rennismíði).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×