Það var sonur Maríönnu Evu Ragnarsdóttur, bónda á Stórhóli, sem fyrstur varð fálkans var.
„Hann hljóp til mín og sagði að það væri haförn þarna inni. Ég sagði haförn? Nei, ertu eitthvað orðinn ruglaður. Svo ég hljóp út og kíkti og þá sat fálkinn bara og fylgdist með manni,“ segir Maríanna.
Þegar kofinn var opnaður drifu eftirlifandi hænur sig út í dauðans ofboði. Ein hænan lá í valnum, en hún hafði ekkert nafn.
„Það hafði greinilega gengið verulega mikið á. Það var búið að tæta hana alla, éta bringuna á henni og plokka af henni fjaðrirnar. Það voru ekkert nema fjaðrir út um allt.“

„Haninn var inni svo það er spurning hvort hann hafi náð að verja þær eitthvað. En kannski lét hann bara þessa einu duga,“ segir Maríanna sem brá á það ráð að reyna að koma fálkanum út til að koma á friði í hænsnakofanum.
„Hann ætlaði nú ekki að hafa sig út. Við vorum komin út með strákúst og reyndum að fæla hann út. Svo bara leist mér ekkert á þetta og hélt að hann ætlaði bara í okkur. Ég ákvað að við myndum bara skilja eftir opið og hann myndi flögra út sjálfur,“ segir Maríanna. Það gekk eftir og fálkinn flaug á braut.
Maríanna er nýkomin heim af fæðingardeildinni með tveggja vikna gamla dóttur sína og hafði því ekki orðið vör við fálka á flugi í nágrenninu upp á síðkastið. Nokkuð hefur þó verið af smyrli á flögri í kring en fálkinn var töluvert stærri en það. „Ég hef náttúrulega fengið mink í hænsnakofann og hann hefur drepið allt sem hann hefur náð í. Þannig að mér fannst þetta bara vel sloppið,“ segir Maríanna.