Innlent

Vísbendingar um að víkjandi erfðir valdi drómasýki í íslenskum hrossum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Íslenskt folald sem er rúmlega mánaðargamalt var greint með drómasýki stuttu eftir að það fæddist. Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að folaldið fær svokölluð svefnköst og sofnar í ólíklegustu aðstæðum, en drómasýki er vel þekktur sjúkdómur í mönnum.

Á meðfylgjandi myndbandi, sem eigandi folaldsins tók, sést vel hvernig það á erfitt með að halda sér vakandi þar sem það eltir móður sína. Björgvin Þórisson, dýralæknir, segir að drómasýki þekkist á meðal íslenskra hesta en tilfellin á hverju ári séu afar fá eða um tvö til þrjú, en yfir 5000 folöld fæðast á Íslandi á ári hverju.

 

„Það er grunur um að þetta sé arfgengt og komi úr ákveðnum línum,“ segir Björgvin í samtali við Vísi. Sjúkdómurinn hefur þó ekki verið rannsakaður hér á landi en Björgvin býst við því að farið verði í rannsóknir á næstu misserum.

Mögulegt að drómasýkin eldist af hrossum

„Þetta er aðeins meira í umræðunni en verið hefur. Það ber kannski meira á þessu núna, til dæmis út af samfélagsmiðlunum. Menn hafa kannski ekkert talað sín á milli áður í þessum fáu tilfellum sem verið hafa.“

Björgvin segir möguleika á að drómasýkin eldist af hrossum en erfitt sé að segja til um það þar sem sjúkdómurinn hafi ekki verið rannsakaður.

„Þetta getur eldst af þeim á fyrsta árinu, þetta getur líka minnkað en svo getur þetta líka verið til staðar það sem eftir er. Það er bara tíminn einn sem getur leitt í ljós hvort að þetta eldist af hrossinu eða ekki, það er ekkert hægt að segja til um það fyrirfram.“

Freyja Imsland, erfðafræðingur.mynd/páll imsland
Drómasýki þekkt í öðrum hrossakynjum

Freyja Imsland, erfðafræðingur, hefur unnið að rannsóknum á erfðafræði húsdýra undanfarin ár. Hún segir í raun ekki mikið vitað um drómasýki í íslenskum hrossum.

„Það er vitað til þess að í sumum tilfellum er þetta eitthvað sem fylgir hrossum ævina á enda, en í öðrum tilfellum er þetta einungis vandamál í folöldum og tryppum, og svo eldist það af þeim að mestu. Við vitum náttúrulega ekki um hvort er að ræða í íslenskum hrossum. Kannski hafa verið nokkur folöld á ári sem eru svona, en svo hefur það eldst af þeim. Við vitum enn ekkert um það,“ segir Freyja.

 

Aðspurð segir Freyja að drómasýki þekkist í öðrum hrossakynjum.

 

„Í sumum kynjum er þetta tilfallandi. Þetta getur legið í ættum en getur líka komið upp úr sýkingum. Það er þekkt hjá fólki. Fólk fær til dæmis veirusýkingu, þá er eins og eitthvað ruglist í líkamanum og einstaklingurinn fær þessa drómasýki upp úr sýkingunni. Það er þó ekki búið að rannsaka þetta hjá hestum, en þetta er ekki ósennilega svipað.“

 

Ekki verið teljandi vandamál hjá íslenska hestinum

Freyja segir að það séu vissar vísbendingar um það að víkjandi erfðir valdi drómasýki í íslenskum hrossum.

 

„Erfðaþátturinn þarf þá að koma bæði frá móður og föður, en við náttúrulega vitum ekki hvort það er tilfellið, þetta er bara ágiskun. En þetta virðist liggja í einhverjum ættum hjá íslenska hestinum, en við vitum ekki fyrir víst hvernig þessu er háttað.“

 

En hvers vegna hefur drómasýki hjá íslenska hestinum ekki verið rannsökuð hingað til?

 

„Þetta hefur ekki verið teljandi vandamál og er sjaldgæft. Ég veit til þess að lítil rannsókn var gerð á einu íslensku folaldi af þýskum vísindamönnum, en hér á landi hefur drómasýki ekki verið til mikilla vandræða. Fólk er einnig ekki endilega meðvitað um það þó það eigi svona folöld. Ef þetta er eitthvað sem háir hrossinu einungis fyrir tamningaraldur, og síðan eldist þetta af þeim þá pælir fólk ekkert meira í því. Folaldið er kannski bara hálfsofandi einhverstaðar úti í haga, og svo þegar er farið að temja hestinn fjögurra vetra gamlan þá man fólk ekkert endilega eftir því hvernig folaldið var fyrir fjórum árum. Þannig að það geta ýmsar ástæður legið að baki því að þetta hefur ekki verið rannsakað til hlítar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×