Innlent

Fangageymslur fullar eftir nóttina

Samúel Karl Ólason skrifar
Nokkuð var um stúta á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Nokkuð var um stúta á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Kolbeinn Tumi
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt vegna ölvunar. Fangageymslur lögreglunnar í miðbænum fylltust þar sem tveir fengu gistingu að eigin ósk og ellefu voru vistaðir fyrir ýmis önnur mál. Samkvæmt dagbók lögreglunnar þurfti að hafa afskipti af fjölmörgum sem voru ofurölvi.

Tilkynnt var um ölvaðan ökumann á Háaleitisbraut og var hann stöðvaður skömmu síðar, eða um miðnætti. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og að aka sviptur ökuréttindum. Þá var bíllinn ótryggður og númer höfðu verið klippt af honu.

Brotist var inn í skóla í Breiðholti og reynt að stela tölvuskjá. Lögreglan telur þó að innbrotsþjófurinn hafi farið tómhentur af vettvangi. Ölvaður ökumaður var handtekinn í Bæjarlind og er hann grunaður um ölvun við akstur og líkamsárás. Hann var stöðvaður af vegfarendum við að reyna að keyra af vettvangi og var haldið þar til lögreglan kom.

Þá datt kona við svið á skemmtun í Árbænum. Samkvæmt lögreglunni er talið að hún hafi kramist undir við sviðið og misst meðvitund. Hún var talin brotin á handleggi og fékk sár á höfði og var flutt á Slysadeild.

Lögreglan handtók mann í miðborginni sem hafði ítrekað reynt að hinda störf lögreglu og fór hann ekki að fyrirmælum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×