Innlent

Borgin stækkar Vesturbæjarskóla

Atli Ísleifsson skrifar
Viðbyggingin verður 1.340 fermetrar og mun hýsa hátíðarsal, eldhús fyrir nemendur, sérkennslustofur og almennar kennslustofur.
Viðbyggingin verður 1.340 fermetrar og mun hýsa hátíðarsal, eldhús fyrir nemendur, sérkennslustofur og almennar kennslustofur. Mynd/reykjavíkurborg
Jarðvegsframkvæmdir munu hefjast síðar í mánuðinum við stækkun Vesturbæjarskóla vegna aukins nemendafjölda. Áætlaður heildarkostnaður framkvæmda við viðbygginguna er 720 milljónir.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að viðbyggingin verði 1.340 fermetrar og muni hýsa hátíðarsal, eldhús fyrir nemendur, sérkennslustofur og almennar kennslustofur.

„Áætlað er að taka viðbygginguna í notkun haustið 2017. Á fyrstu hæð verður hátíðarsalur með aðstöðu fyrir hljómsveit og kennslustofur fyrir tónmennt. Salurinn tengist mötuneyti og verður einnig nýttur sem matsalur. Á annari hæð verða fjórar almennar kennslustofur og myndmenntastofa í nýbyggingu. Á þriðju hæðinni kemur náttúrufræðistofa og útisvæði með gróðurreitum þar sem hægt verður að rækta grænmeti.

Auk viðbyggingar verða einnig gerðar breytingar á eldra húsnæði skólans, en bókasafn og tölvuver verða endurbætt. Þá verður frístundaheimili við Vesturvallagötu endurgert með tilliti til eldvarna og flóttaleiða.

Eins og búast má við verður truflun vegna framkvæmda og þarf að loka hluta gatna. Til að bæta aðstöðu barna og stækka leiksvæði þeirra verður Vesturvallagata lokuð tímabundið milli Hringbrautar og Ásvallagötu. Til að bæta aðkomu að framkvæmdasvæði verður Framnesvegi breytt tímabundið í einstefnugötu til norðurs milli Hringbrautar og Sólvallagötu. Áætlað er að jarðvegsframkvæmdum ljúki í október og tekið til við uppsteypu á næsta ári. Áætlaður heildarkostnaður framkvæmda við viðbygginguna er 720 milljónir,“ segir í fréttinni, þar sem einnig má sjá teikningar og líkön af viðbyggingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×