Innlent

Nýttu ætlaða matstofu eldri borgara undir ræktun

Birgir Olgeirsson skrifar
Ræktunin fór fram í fjölbýlishúsi í Herjólfsgötu sem er ætlað eldri borgurum.
Ræktunin fór fram í fjölbýlishúsi í Herjólfsgötu sem er ætlað eldri borgurum. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í fjölbýlishúsi ætluðu eldri borgurum í Hafnarfirði í gær. Samkvæmt heimildum Vísis er um að ræða fjölbýlishúsaþyrpingu sem stendur í Herjólfsgötu en ræktunin fór fram í miðjuhúsinu, nánar tiltekið í rými sem átti að verða þjónustukjarni fyrir húsin og innihalda meðal annars matstofu. Þær áætlanir fóru út um þúfur þegar bygging húsanna átti sér stað á síðasta áratug og hófst því rekstur þjónustukjarnans aldrei. Þess í stað var rýmið leigt út.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær aðila á þrítugsaldri í tengslum við kannabisræktunina og telst málið upplýst að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir ræktunina hafa verið fremur stóra miðað við þær sem lögreglan hefur stöðvað undanfarið. Um var að ræða 124 plöntur, misstórar, alveg að tveimur metrum á hæð og niður í græðlinga.

„Svo var þarna eitthvað um hálft kíló sem var tilbúið til neyslu,“ segir Margeir sem vildi ekki gefa upp hvar í Hafnarfirði þessi ræktun hefði verið stöðvuð.

Lögreglan að störfum í húsinu

Gunnar Hólmsteinsson, formaður húsfélagsins, segir lögregluna hafa verið að störfum í húsinu í gær en íbúar hafi ekki fengið að vita hvers vegna.

„Okkur var haldið alveg frá þessu,“ segir Gunnar sem segir íbúana ekki hafa orðið vara við grunsamlega hegðun í þessu rými.

Vildu að Hafnarfjarðarbær starfrækti mötuneyti fyrir aldraða

Húsfélagið lagði fram beiðni til bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar í mars síðastliðnum þar sem var farið þess á leit að Hafnarfjarðarbær yfirtæki þetta rými á 1. hæð í miðjuhúsinu. Þannig yrði veitt  sambærileg þjónusta og sveitarfélagið veitir á Hjallabraut og Höfn.

Í beiðninni kemur fram að í þessum þremur fjölbýlishúsum séu 49 íbúðir sem eru ætlaðar 60 ára og eldri en í mars síðastliðnum bjuggu þar 69 einstaklingar, fjórir 90 ára og eldri, tuttugu og sjö á milli 80 og 90 ára og þrjátíu og einn á milli 70 og 80 ára.

Þar segir að allflestir þeirra einstaklinga sem festu kaup á íbúðunum hjá húsbyggjandanum, Íslenskum aðalverktökum, hefðu verið í þeirri góðu trú að Hafnarfjarðarbær myndi starfrækja þar mötuneyti fyrir aldraða. Annað átti síðar eftir að koma í ljós.

Ítrekaði mikilvægi þess að þjónustukjarninn yrði til reiðu

Árið 2007 átti húsfélagið fund með þáverandi bæjarstjóra, Lúðvík Geirssyni, um að Hafnarfjarðarbær kæmi að rekstri aðstöðunnar í rýminu. Kemur fram í beiðninni til bæjarráðs að bæjarstjóri hefði tekið vel í þessa málaleitan en taldi þó, að enn væri einingin helst til lítil.

Hann sagði þó að eldri borgurum sem þyrfti að sinna myndi fjölga í hverfinu með uppbyggingu á Norðurbakka og á Herjólfsgötu og þá gæti málið verið tekið til endurskoðunar. Ítrekaði hann að mikilvægt væri að þjónustukjarninn á Herjólfsgötu yrði til reiðu en síðar kom í ljós að ÍAV væri eigandi þessa rýmis.

Lagði því húsfélagið fram formlega beiðni til bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar að sveitarfélagið tæki rýmið yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×