Innlent

Bæjarstjórinn heyrði um förgun geislavirkra efna í fréttum

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, heyrði fyrst í fréttum að geislavirk efni hefðu fallið til við orkuvinnslu í Reykjanesvirkjun og þeim hefði verið fargað á svæðinu. Hann segir það óheppilegt en hann hafi þó fengið þær skýringar að engin hætta sé á ferðum.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ætlar að setja sig í samband við Geislavarnir ríkisins og skoða málið enda haga íbúar lýst áhyggjum af vatnsbólinu á svæðinu.

Lítil hætta á geislun

Efnin sem fundust eru pólóníum og geislavirkt blý, þau eiga ekki að vera til staðar nema móðurefnin radium og radon séu til staðar, þau geta hinsvegar verið mjög djúpt í iðrum jarðar.

Í tilkynningu frá Geislavörnum segir að þessi efni gefi frá sér beta- eða alfa geislun sem sé skammdræg. Geislunin er það skammdræg að fólk verður ekki fyrir geislun frá útfellingunum þó það standi mjög nálægt þeim en ef fólk innbyrðir þessi efni valda þau innvortis geislun.

Í tilkynningunni segir að það sé þó mat Geislavarna ríkisins að geislun frá þessum útfellingum sé svo lítil að fólki stafi ekki hætta af.

Starfsmenn sallarólegir

Þorgeir Sigurðsson verkfræðingur hjá Geislavörnum ríkisins sagði við RÚV í gær að að Geislavarnir hefðu mátt skýra fyrr frá málinu og hraða hefði mátt rannsóknum.

Skammt frá urðunarstaðnum er hausaverkun og í um kílómetra fjarlægð er fiskeldisstöð. Ásgeir segir að þar sé engin hætta á ferðum, þetta séu föst efni sem ekki fjúki um eða blandist andrúmsloftinu.

Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku segir að engin hætta sé á ferðum, efnin séu hættulaus nema þeim sé andað að sér eða neytt í einhverju magni. Hann hitti starfsmenn á fundi í Reykjanesvirkjun í morgun og sagði þá sallarólega vegna málsins enda væri fyllsta öryggis gætt við förgun allra jarðefna, þar væru men jafnan í hlífðargalla með hanska. Efnið var urðað með öðrum jarðefnaúrgangi þar til geislavirknin kom í ljós, þá er þeim fargað í lokuðum ílátum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×