Innlent

Vart við geislavirkni á Íslandi í fyrsta sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Reykjanesvirkjun.
Reykjanesvirkjun. Vísir/GVA
Vart hefur orðið við uppsöfnun náttúrulegra geislavirkra efna í fyrsta sinn hér á Íslandi. Slík uppsöfnun fannst í borholutoppum við Reykjanesvirkjun, en hún er staðbundin samkvæmt tilkynningu frá Geislavörnum ríkisins. Mælingar stofnunarinnar gefa til kynna aukna geislavirkni miðað við það sem algengast er á Íslandi.

Engin hætta er þó á ferðum. Til að fullnægja ýtrustu öryggiskröfum hefur því verið beint til HS Orku að þeir einstaklingar sem vinni við hreinsun á þessum útfellingum beri viðeigandi hlífðarbúnar.

„Uppsöfnunin verður vegna þess að fjölmörg efni, þar á meðal ákveðin geislavirk efni úr náttúrunni, falla út við borholutoppana. Þessi efni eru blý (Pb-210) bismút (Bi-210) og pólon (Po-210), en þau eru öll dótturefni úrans (U-238) sem finnst alls staðar í umhverfi okkar. Við ákveðnar aðstæður geta þau safnast upp í útfellingum eins og þekkt er t.d. við olíu- og gasvinnslu annars staðar í heiminum, en einnig við hagnýtingu jarðhita.“

Þar kemur fram að umrædd efni gefi frá sér beta- eða alfa geislun sem sé það skammdræg að fólk verði ekki fyrir geislun frá útfellingunum þó það standi mjög nálægt þeim.

Lítið um umrædd efni á Íslandi

Náttúruleg geislavirk efni eru í öllu umhverfi mannsins og í öllum manneskjum. Samkvæmt Geislavörnum ríkisins er þó mjög lítið af þessum efnum hér á Íslandi, miðað við í nágrannalöndum okkar. Það er vegna þess að ríkjandi berggrunnur hér er basalt en ekki granít.

„Í gildi eru alþjóðleg viðmið fyrir hve miklu geislaálagi almenningur má verða fyrir árlega vegna starfsemi sem getur valdið geislun. Fyrir starfsmenn við slíka starfsemi gilda önnur og margfalt hærri mörk en fyrir almenning, sem þó eru það lág að tryggt á að vera að hugsanlegur skaði sé ekki meiri en í öðrum störfum sem flokkuð eru sem örugg.“

Geislavarnir hafa veitt HS Orku heimild til hreinsunar og geymslu útfellinga með aukna náttúrulega geislavirkni frá Reykjanesvirkjun. Starfsmenn Geislavarna hafa verið viðstaddir hreinsun útfellinga að undanförnu og hafa gert ýmsar mælingar á vettvangi.

Stofnunin metur það svo að þessar útfellingar sem sé eingöngu að finna í borholutoppum við Reykjanesvirkjun, vegna sérstakra jarðfræðilegar aðstæður. Mælingar hafa verið framkvæmdar við Svartsengi og Nesjavelli og þar hafa ekki fundist vísbendingar um aukna náttúrulega geislavirkni.

Mælingar verða gerðar við aðrar jarðvarmavirkjanir á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×