Innlent

Skoða að breyta blóðgjafareglum

Ingvar Haraldsson skrifar
Sveinn Guðmundsson
Sveinn Guðmundsson
Heilbrigðisráðuneytið er með til skoðunar hvort heimila eigi í einhverjum tilfellum blóðgjafir samkynhneigðra karla.

Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri heilbrigðisráðuneytisins, vonast til að niðurstaða komist í málið í haust en slíkt verði unnið í samstarfi við Blóðbankann og Landlæknisembættið.

Kristján Þór Júlíusson gaf út í desember að vonast væri til að ráðgjafarnefnd um blóðbankaþjónustu skilaði áliti í janúar síðastliðnum um blóðgjafir samkynhneigðra. Álitinu hefur enn ekki verið skilað en Sveinn segir að nefndin hafi skilað af sér fundargerð í sumar án þess að komist hafi verið að einni ákveðinni niðurstöðu.

Sveinn segir að slakað hafi verið á blóðgjafabanni samkynhneigðra í einhverjum nágrannalöndum þar sem samkynhneigðum körlum sem ekki hafa stundað kynlíf í talsverðan tíma verði heimilt að gefa blóð.

Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, hefur sagt að það sé heilbrigðisyfirvalda að breyta reglum um blóðgjafir, þar með talið reglum um blóðgjafir samkynhneigðra karla. Nafni hans, Sveinn, hjá heilbrigðisráðuneytinu segir hins vegar að Blóðbankinn hafi breytt reglum án þess að hafa haft samráð við heilbrigðisráðuneytið. „Við höfum ekki komið að einstaka reglum Blóðbankans,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×