Í eðlilegu árferði er stefnt að því að afgreiðsluhraði hjá embættinu sé innan við ein vika. Í dag er hann fjórar til fimm vikur, en þegar verkfalli lauk höfðu sum mál beðið í tæpar ellefu vikur. Þórólfur segir að einhverjar vikur taki að koma málum í eðlilegt horf, enda hafi mikill fjöldi mála safnast upp.

Síðan var aragrúi af málum á fullnustusviði, aðfararmál svokölluð, fjárnámskröfur, nauðungarsölur. Það eru aftur mál sem þarf að boða í sérstaklega með ákveðnum fyrirvara þannig að þegar verkfalli lauk var ekki bara hægt að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið, heldur þurfti að auglýsa upp á nýtt eða senda boðanir með nokkurra vikna fyrirvara, eftir því á hvaða stigi málin voru, og síðan dreifa þeim með eðlilegum hætti. Þetta er því ekki þannig að það sé hægt að byrja eins og ekkert hafi í skorist.“
Í verkfallinu gat fólk ekki látið gefa sig saman hjá sýslumanni og ekki var hægt að afgreiða skilnaði. Sumir gáfust upp á biðinni.
„Það eru meira að segja dæmi um að fólk hafi hætt við að skilja í verkfallinu af því að það stóð svo lengi.“
Verkfall BHM hófst 7. apríl og lauk 13. júlí þegar Alþingi samþykkti lög sem bönnuðu það. Þá tóku við sumarfrí.
„Sumarorlofstími er ákveðinn samkvæmt lögum og þá þarf fólk að taka sitt orlof. Það er því ákveðið flækjustig í þessu.“