Innlent

World Class stöðin í Breiðholti opnar í febrúar

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Fyrsta skóflustungan að líkamsræktarstöðinni var tekin í dag.
Fyrsta skóflustungan að líkamsræktarstöðinni var tekin í dag.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og hjónin Hafdís Jónsdóttir og Björn Leifsson, eigendur World Class, tóku rétt eftir hádegi í dag saman fyrstu skóflustunguna að nýrri líkamsræktarstöð við Breiðholtslaug. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Framkvæmdir að stöðinni hefjast í þessari viku og er áætlað að hún opni í febrúar 2016, en skrifað var undir samning um byggingu og rekstur stöðvarinnar í apríl síðastliðnum og hefur undibúningur staðið yfir síðan þá,” segir í tilkynningunni.

„Líkamsræktarstöðin mun rísa sunnan sundlaugarinnar og gerður verður tengigangur meðfram íþróttahúsi til að samnýta afgreiðslu, búningsklefa og sturtur með sundlauginni. Gestir stöðvarinnar fá einnig aðgang að lauginni en slíkt er einnig nú þegar í boði fyrir þá viðskiptavini sem æfa í World Class í Laugum, á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ.

Vel fór á með þeim Degi, Bjössa og Dísu.
Deiliskipulag hefur verið samþykkt og heimilaði það aukinn byggingarétt að 1.700 fermetrum, en líkamsræktaraðstaðan er hönnuð af Úti og Inni arkitektum og Ara Má Lúðvíkssyni arkitekt. „Við erum mjög ánægð með að geta nú hafist handa svo að Breiðhyltingar komist í ræktina í sínu hverfi sem fyrst. Það er heiður fyrir okkur hjá World Class að vinna að þessu verkefni með borginni og við ætlum auðvitað að gera þetta vel,“ sagði Björn Leifsson í dag.

„Það verður gott fyrir hverfið að fá loksins líkamsræktarstöð en hún mun líka styrkja Breiðholtslaug enn frekar. Ég veit fyrir víst að nemendur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti fagna framkvæmdunum og eins eldri borgarar sem búa í hverfinu,“ sagði Dagur við tilefnið.”

Teikning af líkamsræktarstöðinni sem stendur til að opna í febrúar á næsta ári.Vísir/Aðsend
.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×