Innlent

Rússneskar herflugvélar í tvígang flogið nálægt Íslandi á árinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rússneski björninn hefur verið að fara á stjá.
Rússneski björninn hefur verið að fara á stjá. VÍSIR/AFP
Flugvélar rússneska hersins hafa í tvígang flogið nærri Íslandi það sem af er árinu en mikið hefur verið að gera hjá flugsveitum NATO í Evrópu vegna slíkra fluga rússneska hersins. Í raun svo mikið  að leita þarf aftur til kalda stríðsins til þess að finna dæmi um jafn mikinn fjölda aðgerða.

Alls hafa flugsveitir NATO farið í 250 aðgerðir vegna flugferða rússneskra herflugvéla og hafa tvær af þeim verið vegna fluga í nágrenni Íslands samkvæmt upplýsingum frá Utanríkisráðuneytinu og Landhelgisgæslunni.

Þann 19. febrúar sl. flugu tvær Tupolev Tu-95 herflugvélar mjög nálægt Íslandi. Þær voru í aðeins 26 sjómílna fjarlægð frá Stokksnesi og hafa þær ekki komið svo nálægt Íslandi frá því að kalda stríðinu lauk. Mánuði síðar eða þann 19. mars sl. flugu tvær slíkar vélar aftur í nágrenni Íslands en þó í meiri fjarlægð í þetta skiptið eða í um 80 sjómílur suðaustur af Stokksnesi.

Flugsveitir frá Bretlandi og Noregi tóku á móti flugvélunum og fylgdu þeim úr hlaði en í febrúar og mars voru engar flugsveitir staðsettar á Keflavíkurflugvelli til þess að sinna eftirliti á loftrýmiseftirlitssvæði NATO í nágrenni Íslands. Tékkneskar flugsveitir komu til landsins þann 23. júlí sl. til þess að sinna loftrýmiseftirliti.

Mest mæðir á loftrýmiseftirliti NATO í Eystrasaltsríkjunum vegna flugferða rússneska hersins yfir evrópskri lofthelgi. Hefur loftrýmisgæslan í Eystrasaltsríkjunum séð um 120 af aðgerðunum 250. Hefur það leitt til þess að bandalagið hefur tvöfaldað stærð þeirra flugsveita sem sjá um loftrýmisgæsluna á því svæði.


Tengdar fréttir

NATO stendur í ströngu

Flugsveitir bandalagsins ekki þurft að grípa til jafn margra aðgerða gegn flugi flugsveita rússneska hersins síðan kalda stríðinu lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×