Enski boltinn

Neville vill að Van Gaal fái að halda áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal.
Louis van Gaal. Vísir/Getty
Framtíð Louis van Gaal sem knattspyrnustjóra Manchester United er í uppnámi eftir skelfilegt gengi að undanförnu og Phil Neville, fyrrum leikmaður félagsins, er einn af þeim sem hefur tjáð sig um málið.

Manchester United tapaði á heimavelli á móti Norwich um helgina og hefur nú leikið sex leiki í röð í öllum keppnum án þess að vinna leik. Síðustu tapleikir hafa verið á móti Norwich og Bournemouth.

Van Gaal talaði um það eftir tapleikinn á móti Norwich að hann hefði áhyggjur af starfinu og sumir hafa gengið svo langt með því að telja næsta leik á móti Stoke vera leik upp á líf eða dauða fyrir hollenska stjórann.

„Það er ekki lengur tíð Sir Alex Ferguson. Sú tíð er liðin og menn þurfa að átta sig á raunveruleikanum. Nú er tíð Louis van Gaal og stanslausar breytingar eru ekki rétta svarið," sagði Phil Neville við BBC Radio 5 live.

Manchester United er eins og er í fimmta sæti deildarinnar nú níu stigum á eftir toppliði Leicester City. Liðið varð meistari í þrettánda sinn undir stjórn Sir Alex Ferguson vorið 2013 en hefur síðan endað í sjöunda og fjórða sæti.

Phil Neville vill að Louis van Gaal fái tækifæri til að klára tímabilið með Manchester United. „Ég var leikmaður United í níu ár og þetta var ekki alltaf fallegt. Það virðist vera þráhyggja hjá öllum félögum að ef úrslitin falla ekki með liðinu í fjórum eða fimm leikjum í röð þá sé rétt að skipta um stjóra. Það er ekki svarið," sagði Neville.

„Það eru hæfileikar í liðinu og United er aðeins nokkrum stigum á eftir þremur efstu liðunum. Það er ekki eintómt svartnætti þótt að frammistaðan mætti vissulega vera betri," sagði Neville.

„Menn verða bara að treysta manni sem hefur unnið til í öllum helstu Evrópulöndunum. United bað hann um að koma liðinu í Meistaradeildina og hann gerði það. Núna er markmiðið að vinna titil. United þarf að fara að taka ákvörðun. Ætlar félagið að breytast í klúbb sem skiptir um stjóra á tólf til átján mánaða fresti eða er ætlun að leitast eftir að ná stöðugleika á ný," sagði Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×