Enski boltinn

Ranieri: Leicester er eins og Forrest Gump

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Forrest Gump og Jamie Vardy eru miklir hlaupagikkir.
Forrest Gump og Jamie Vardy eru miklir hlaupagikkir. vísir/getty
Líklega hefði enginn trúað því fyrir tímabilið að Leicester City yrði á toppnum í ensku úrvalsdeildinni um jólin en sú er nú raunin.

Refirnir hafa spilað liða best á tímabilinu og halað inn 38 stig í fyrstu 17 umferðunum, tveimur meira en Arsenal sem er í 2. sæti.

Margir hafa spurt sig hversu lengi lærisveinar Claudio Ranieri haldi út en Ítalinn segir að Leicester-blaðran sé ekkert að fara að springa.

"Ég er mjög bjartsýnn því Leicester bjargaði sér frá falli á tveimur síðustu mánuðum tímabilsins í fyrra sem þýðir að úthald leikmannanna er frábært," sagði Ranieri sem líkti Leicester-liðinu við kvikmyndapersónuna Forrest Gump sem Tom Hanks lék í samnefndri mynd frá árinu 1994.

"Af hverju getum við ekki haldið áfram að hlaupa, hlaupa, hlaupa? Leicester er eins og Forrest Gump. Það er fín fyrirsögn," sagði Ítalinn kankvís.

Leicester á tvo erfiða leiki fyrir höndum en á öðrum degi jóla sækja Refirnir Liverpool heim. Þremur dögum síðar tekur Leicester svo á móti Manchester City. Jólatörninni lýkur svo 2. desember þegar Leicester mætir Bournemouth á King Power vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×