Innlent

Tíu vegfarendur slösuðust og einn lést í átta umferðarslysum á einni viku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi á Suðurlandsvegi.
Frá vettvangi á Suðurlandsvegi. mynd/lögreglan
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brýnir fyrir vegfarendum í umferðinni að fara varlega, ekki síst þessa dagana þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku á hverjum degi. Nokkuð var um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu í seinustu viku en þá slösuðust tíu vegfarendur í átta umferðarslysum, en karlmaður á sextugsaldri lést í einu slysanna.

Maðurinn varð fyrir bifreið á Vesturlandsvegi fyrir viku síðan en bílnum var ekið áleiðis að aðrein að Höfðbakka þegar hjólreiðamaðurinn var á leið þar áfram austur veginn. Hann var úrskurðaður látinn á vettvangi.

Á vef lögreglunnar er farið yfir tímasetningar, aðdraganda og orsakir slysanna en þar kemur meðal annars fram að á jóladag hafi bíl verið ekið austur Sörlaskjól. Á móts við Sörlaskjól 80 hafi bílinn byrjað að snúast á klaka, ökumaðurinn hafi þá reynt að stöðva bílinn en lenti á vegfaranda sem var að losa barn úr bílstól kyrrstæðrar bifreiðar. Var vegfarandinn fluttur á slysadeild.

Þá var tilkynnt um þrjú umferðarslys á annan í jólum. Var þá meðal annars tilkynnt um bifreið sem valt út af Suðurlandsvegi við Sandskeið. Bílnum hafði verið ekið vestur veginn, fram úr annarri bifreið á vinstri akrein og síðan beygt áleiðis aftur yfir á hægri akrein er óhappið varð. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Nánar má lesa hér um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku.


Tengdar fréttir

Nafn hjólreiðamannsins sem lést

Hjólreiðamaðurinn sem lést í umferðarslysi í Ártúnsbrekku í Reykjavík á mánudag hét Juan Valencia Palmero.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×