Sport

Conor stefnir á belti í tveimur þyngdarflokkum á sama tíma

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Conor McGregor ætlar að halda tveimur beltum í einu.
Conor McGregor ætlar að halda tveimur beltum í einu. v´siir/getty
Conor McGregor, nýkrýndur heimsmeistari í fjaðurvigt í UFC, ætlar ekki að gefa eftir heimsmeistarabeltið þó hann taki slaginn í léttvigtinni, þyngdarflokknum fyrir ofan.

Conor þarf að skera svakalega mikið af sér fyrir hvern bardaga í fjaðurvigtinni og því hafa margir búist við því að Írinn spreyti sig í léttvigtinni.

Sjá einnig:Conor um bardaga Gunnars: Hjarta mitt brast

Írski vélbyssukjafturinn varð óumdeildur heimsmeistari í fjaðurvigt á sunnudagsmorgun þegar hann rotaði Brasilíumanninn Jose Aldo eftir þrettán sekúndur í bardaga þeirra í Las Vegas.

„Ef ég fer upp í þessa léttvigtardeild er ekki nokkur leið í helvíti að ég gefi eftir heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt,“ sagði Conor við fréttamenn í Las Vegas.

„Ég mun bera belti á báðum öxlum. Bæði beltin verða virk því sjálfur verð ég virkur,“ sagði Conor sem gerði að því skóna að hann ætli að berjast í báðum flokkum á næstu árum.

„Ég veit það er möguleiki fyrir mig að taka þetta léttvigtarbelti. Það eru kannski einhverjir í fjaðurvigtinni sem vilja spreyta sig gegn mér þannig leyfum þeim að berja á hvorum öðrum á meðan ég færi mig upp og tek léttvigtarbeltið. Síðan fer ég aftur niður og afgreiði næsta mann í fjaðurvigtinni,“ sagði Conor McGregor.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×