Innlent

Sjö líkamsárásir í Reykjavík í nótt

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ktd
Mikill erill  var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna ölvaðs fólks. Nokkuð var um ölvunarakstur og óspektir, sem og um slagsmál. Að minnsta kosti sjö líkamsárásir voru tilkynntar lögreglu, flestar í miðbænum.

Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um líkamsárás á Lækjartorgi. Sá sem fyrir árásinni varð nefbrotnaði, en ekkert er vitað um málið að öðru leiti, að því er segir í dagbók lögreglu. Eins liggja litlar upplýsingar fyrir um aðra líkamsárás sem átti sér stað í miðbænum um klukkan hálf þrjú í nótt, þar sem einn hlaut smávægilega áverka í andliti.

Þá veittist karlmaður að dyravörðum á skemmtistað í austurbænum. Hann  var handtekinn og færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Hann var látinn laus að lokinni yfirheyrslu, því ekki er ljóst hvort kæra verði lögð fram í málinu. Um klukkan fimm var tilkynnt um mann í roti á Laugavegi, en ekkert er frekar vitað um málið.

Í austurbænum var karlmaður handtekinn, grunaður um heimilisofbeldi og líkamsárás. Hann var vistaður í fangageymslu vegna frekari rannsóknar málsins. Þá var annar handtekinn í Mosfellsbæ vegna heimilisofbeldis.

Um tvö leitið var tilkynnt um innbrot og þjófnað í frístundaheimili í austurbænum. Farið var inn á skrifstofu og rótað þar í hirslum, en ekki liggur fyrir hvort eitthvað hafi verið tekið. Þá var einn fingralangur handtekinn um klukkan fimm í nótt, grunaður um að hafa stolið síma. Á manninum fundust fíkniefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×