Innlent

Þingmaðurinn sjálfur farið vopnaður í útköll

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir óheppilegt að lögreglumaður sem kom að umferðarslysi í Ljósavatnsskarði á dögunum hafi verið vopnaður. Koma hefði mátt í veg fyrir það með sérstökum vopnakassa í lögreglubílnum, líkt og áætlað er að lögreglumenn fái á næstu dögum.

Hann segist sjálfur hafa lent í sambærilegri aðstöðu, oftar en einu sinni, þegar hann starfaði sem lögreglumaður.

„Í kringum 11. september var viðbúnaðarstig á Keflavíkurflugvelli til dæmis hækkað. Þá vorum við oft vopnaðir á flugstöðinni, við vopnaeftirlit, sem krafa var um. Þá vopnuðumst við á lögreglustöð í Keflavík og fórum upp í þetta eftirlit,“ sagði Vilhjálmur í Sprengisandi á Bylgjunni. Oftar en ekki hafi þeim borist útkall og þá ekki gefist tími til að afvopnast.

„Við höfðum engan byssuskáp í lögreglubifreiðinni til að setja byssuna í og við höfðum ekki tíma til að fara á lögreglustöðina. Við berum ábyrgð á vopninu og ekki viljum við skila það eftir þar sem því gæti verið stolið. Þetta kom oftar en einu sinni fyrir og þetta var óþægileg staða sem við vildum ekki vera í. En ef við hefðum haft öruggan búnað í bílnum til að geyma vopnið þá hefðum við alltaf afvopnast og sett það þar.“

Vilhjálmur hefur verið ötull talsmaður þess að vopnavæða lögregluna. Hann segir ekki nóg að einungis sérsveitin fái að bera vopn, viðbragðstími hennar sé hægur og að lögregla þurfi að geta tryggt eigið öryggi, svo hún geti tryggt öryggi annarra.

„Ég get þulið nokkur dæmi þar sem ég hef sjálfur verið á vettvangi þar sem við höfum fengið tilkynningu um byssuútkall og það er búið að afgreiða málið áður en sérsveitin kemur. En það er ekkert óeðlilegt við það, það er ekki fræðilega hægt að fá hana hraðar á vettvang.“

Þá segir hann vissulega alltaf hættu á mistökum – allir geti gert mistök. „Það eru alltaf einhverjir sem geta misnotað vald sit t eða gert mistök. Góðir menn geta það líka, þannig að hættan er alltaf til staðar. En það er líka hætta á því að eitthvað komi upp. Þess vegna þurfum við að vera tilbúin fyrir þá hættu að þegar eitthvað gerist að við séum við það búin.“

Hlusta má á viðtalið við Vilhjálm í spilaranum hér fyrir neðan, en Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lögmaður ræddi málið einnig og voru þau bæði nokkuð sammála um að bæta þyrfti eftirlit með lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×