Innlent

Kalla á viðræður um kaup á Reiðhöllinni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Reiðhöllin í Víðidal hefur verið nýtt til hestasýninga um árabil. Nú hefur Reykjavíkurborg auglýst hana til sölu.
Reiðhöllin í Víðidal hefur verið nýtt til hestasýninga um árabil. Nú hefur Reykjavíkurborg auglýst hana til sölu. Fréttablaðið/stefán
Ferðaþjónustufyrirtækið Reykjavík Riding Center hefur óskað eftir viðræðum við Reykjavíkurborg um kaup á Reiðhöllinni í Víðidal. Þetta kemur fram í bréfi sem sent var borgarráði og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.

Reykjavíkurborg auglýsti á dögunum fjölmargar fasteignir til sölu. Þar á meðal var Reiðhöllin. Reykjavík Riding Center hefur starfað í fjögur ár, býður hestaferðir fyrir ferðamenn og er með aðstöðu í gamla dýraspítalanum í Víðidal.

Andrés Pétur Rúnarsson, eigandi Reykjavík Riding Center, segir að fyrirtækið gæti hugsað sér að reka svipaða starfsemi og í Fákaseli í Ölfusinu. Það yrði þá boðið upp á reglulegar reiðsýningar fyrir ferðamenn. „Það er algjör óþarfi að vera að fara yfir heiðina, sérstaklega þegar færðin er svona eins og hún hefur verið, og þetta gæti verið mjög spennandi dæmi,“ segir Andrés Pétur.

Í bréfinu til Reykjavíkurborgar segir að Reykjavík Riding Center hafi verið í viðræðum við fjárfesta vegna mögulegra kaupa á Reiðhöllinni. Hann vill ekki nefna það að svo komnu máli hverjir þeir fjárfestar eru. „Við viljum sjá fyrst hvort það er alvara hjá borginni að selja Reiðhöllina eða hvort þetta er tilfærsla á fé. Ég veit ekkert hvort þeir ætla að selja þetta einhverju eignarhaldsfélagi og leigja þetta aftur, hvort þetta sé þá bara eitthvert bókhaldstrikk,“ segir Andrés Pétur.

Það sé þó vissulega búið að ræða málin lauslega við fjárfesta. „Eins og þú þekkir þá er ferðaþjónustan á mikilli uppleið og tiltölulega einfalt að fá fjárfestingu í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×