Innlent

Veitinghús á Hakinu fær samþykki

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Á Hakinu er nú þegar þjónustuhús, salernisaðstaða og starfsmannahús.
Á Hakinu er nú þegar þjónustuhús, salernisaðstaða og starfsmannahús. Fréttablaðið/Pjetur
Þingvallanefnd hefur samþykkt að hefja strax undirbúning að veitinga- og móttökuhúsi á Hakinu.

„Í húsinu verði fullbúið og vandað veitingahús þar sem í boði verði úrvals matur og góð þjónusta, þar verði auk þess salur til veislu- og fundarhalda. Húsið rísi suðvestan við núverandi gestastofu þar sem víðsýni og fegurð Þingvalla og fjallahringsins nýtur sín,“ segir í fundargerð Þingvallanefndar þar sem þessi ákvörðun er gerð kunn og sagt að nú verði gerð „frumathugun og þarfagreining“ í samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins.

Fram kemur að rekstur nýja hússins og aðkoma gesta eigi að nýta bílastæði og aðkomuleiðir sem þegar séu fyrir hendi á Hakinu. „Göngustígar og útsýnisstaðir í grenndinni tengist kerfi gönguleiða fram á brún Haksins og niður í Hestagjár, Hallsins, gamla Valhallarplans og bakka Öxarár,“ segir áfram um málið.

Með þessari ákvörðun virðist ljóst að ekki verður byggð nýtt Hótel Valhöll á reitnum þar sem hótelið stóð þar til það gjöreyðilagðist í eldsvoða í júlí 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×