Innlent

Ráðherra hrindi tillögum í framkvæmd

Þorgnýr Einar Albertsson skrifar
Fiskvinnsla á Tálknafirði.
Fiskvinnsla á Tálknafirði. Fréttablaðið/Egill
Félag atvinnurekenda og Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda lýsa undrun yfir því að Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra „hafi kosið að aðhafast ekkert til að hrinda tilmælum Samkeppniseftirlitsins í framkvæmd“. Þetta segir í bréfi samtakanna til ráðherra þar sem þau kalla eftir afstöðu hans.

Álit Samkeppniseftirlitsins sem vísað er til er frá árinu 2012 og fjallar um samkeppnisstöðu útgerða sem ekki stunda fiskvinnslu og fiskvinnslufyrirtækja sem ekki stunda veiðar gagnvart útgerðum sem stunda veiðar og vinnslu.

Í áliti Samkeppniseftirlits segir meðal annars að samkeppnishindrun felist í því að einungis sé heimilt að framselja aflaheimildir á milli aðila sem eiga og reka fiskiskip. Í bréfinu segir að það fyrirkomulag valdi því að aðilar sem stunda einungis fiskvinnslu séu í verri aðstöðu en lóðrétt samþættar útgerðir til að verða sér úti um hráefni.

Samkeppniseftirlitið mæltist árið 2012 til þess að sjávarútvegsráðherra beitti sér fyrir breytingum á fyrirkomulaginu, meðal annars því að heimildir til kvótaframsals yrðu auknar.

„Aðgerðaleysið er vonandi ekki til marks um að stjórnvöldum standi á sama um samkeppnishindranir í sjávarútveginum og horfi fram hjá þeirri augljósu staðreynd að ekki sitja öll sjávarútvegsfyrirtæki við sama borð,“ segir í bréfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×