Innlent

Nýtt alþjóðlegt nám á unglingastigi

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Hanna Hilmarsdóttir, skólastjóri Alþjóðaskólans, með tveimur nemendum skólans á grunnskólastigi.
Hanna Hilmarsdóttir, skólastjóri Alþjóðaskólans, með tveimur nemendum skólans á grunnskólastigi. Vísir/Vilhelm
„Við viljum brúa bilið á milli grunnskóla og menntaskóla, segir Hanna Hilmarsdóttir, skólastjóri Alþjóðaskólans á Íslandi, sem er skóli einn sinnar tegundar á landinu. Hann er alþjóðlegur og tvítyngdur.

Kennt í tíu ár

Nemendur skólans geta hafið nám í fimm ára bekk. Í haust var bætt við 8. bekk og stefnt er að því að bæta við 9. og 10. bekk í framhaldinu. „Við höfum kennt á grunnskólastigi í rúm tíu ár, það hefur hins vegar vantað nám á unglingastigi sem undirbúning undir framhaldsskóla,“ segir Hanna, en alþjóðleg braut er kennd við Menntaskólann við Hamrahlíð.

Alþjóðaskólinn hefur hafið vottunarferli hjá CIS (Council of International Schools) og Hanna segist vilja innleiða nám á unglingastigi samhliða vottunarferlinu. „Við hér á Íslandi viljum vera samkeppnishæf við aðra alþjóðlega skóla úti í heimi og fannst kjörið að gera þetta samhliða.“

Allur heimurinn undir

Í Alþjóðaskólanum er kennt eftir  International Primary Curriculum og námsmarkmiðum; Aero. „Ég lýsi stundum muninum með því að hjá okkur er allur heimurinn undir. Öll lönd, öll trúarbrögð og menning eru jafnrétthá.

Börnin sem eru á tvítyngdri braut læra bæði íslensku og ensku og eru þjálfuð í að nota gögn á báðum tungumálum frá sex ára aldri, til dæmis í stærðfræðinámi.“

Hanna segir nemendahópinn samanstanda af íslenskum og erlendum nemendum, sumum tvítyngdum og sumum jafnvel fjöltyngdum. „Sumir eru tímabundið í skólanum, foreldrarnir eru starfsmenn sendiráða eða fyrirtækja.

Önnur hafa verið með íslenskum foreldrum sínum sem hafa starfað úti eða verið í námi og enn önnur eru tvítyngd og jafnvel þrítyngd. Þá hugsa foreldrarnir sér jafnvel til hreyfings á ný og vilja halda við færni barnanna. Það er jafnan ekki stór nemendahópur hér, en hann fer stækkandi.“

Skólinn er einkaskóli og því eru innheimt skólagjöld. Þau eru misjöfn eftir því í hvaða sveitarfélagi nemendur búa. Þá hafa fyrirtæki styrkt börn starfsmanna, sem hingað flytjast, til námsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×