Innlent

Ógnuðu hvor öðrum með hnífi

Gissur Sigurðsson skrifar
Ýmis verkefni komu á borð lögreglunnar í nótt, samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Ýmis verkefni komu á borð lögreglunnar í nótt, samkvæmt dagbók lögreglunnar. Vísir/Anton
Þegar lögregla kom á vettvang vegna tilkynningar um hávaða frá íbúð í fjölbýlishúsi í austurborginni á örðum tímanum í nótt kom í ljós að þar voru tveir menn að ógna hvor öðrum með hnífum. 

Þeir voru handteknir og sömuleiðis þriðji maðurinn, sem var í íbúðinni, en hann sýndi lögreglu ógnandi tilburði og neitaði að segja deili á sér. Mennirnir verða yfirheyrðir í dag.

Berfættur á gatnamótum

Betur fór  en á horfðist þegar lögreglunni var í gærkvöldi tilkynnt um berfættan mann í svörtum kufli með ljá í hendi, á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns. 

Lögreglumenn höfðu því varann á þegar þeir nálguðust manninn, en brátt kom í ljós að hann var alveg meinlaus þátttakandi í myndbandsupptöku. 

Númerslaus undir áhrifum

Lögreglan á Akureyri Þegar lögreglan á Akureyri stöðvaði númerslausan bíl undir miðnætti, kom í ljós að að ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis og fíkniefna. 

Bíllinn var líka ótryggður og óskoðaður, auk þess sem ökumaðurinn var réttindalaus eftir að hafa misst þau fyrir ölvunarakstur. Einn farþegi var í bílnum og var hann líka í annarlegu ástandi.

Slökkvilið kalla út vegna bíls

Kallað var á slökkviliðið í gærkvöldi, þegar reykjarbrælu tók að leggja undan bíl á Bústaðavegi og óttast var að kviknað væri í bílnum. 

Þegar slökkviliðið kom á vettvang logaði engin eldur, en í ljós kom að hvarfakúturinn hafði hitnað mjög og var farinn að svíða ryðvörn á undirvagninum. 

Kúturinn var kældur og hlutust engar skemmdir af þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×