Innlent

Takmarkað traust borið til Háskólans á Bifröst

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Gæðaráð ber takmarkað traust til þess að skólinn geti tryggt gæði prófgráða. Borið er traust til allra annarra háskóla á landinu.
Gæðaráð ber takmarkað traust til þess að skólinn geti tryggt gæði prófgráða. Borið er traust til allra annarra háskóla á landinu.
Gæðaráð íslenskra háskóla ber takmarkað traust til þess að Háskólinn á Bifröst geti tryggt gæði prófgráða sem skólinn veitir. Skólinn var síðasti skólinn af sjö sem undirgekkst þessa úttekt, og er jafnframt sá eini sem hefur ekki staðist matið.

Þær athugasemdir sem gerðar voru lúta að takmarkaðri notkun skólans á tölfræðilegum upplýsingum til að undirbyggja mat og áætlanagerð, lítilli viðleitni til að nota upplýsingar frá samanburðarháskólum, skorti á formlegri áætlanagerð, þörf á endurskoðun stjórnsýslu, skorti á upplýsingum um vinnu brautskráðra nemenda, litlum tengslum á milli kennslu og rannsókna, skorti á akademísku starfsfólki með doktorsgráður og skorti á formlegri ráðningu kennara og annars akademísks starfsfólks.

Í tilkynningu frá háskólanum segir að þegar hafi verið brugðist við athugasemdunum og að unnin hafi verið áætlun til úrbóta. Bundnar séu vonir við að gæðaráð geti lýst trausti á háskólann í næstu umferð gæðamatsins. Þá hafi háskólinn fengið sérstakt hrós fyrir þætti sem snúa að námi og kennslu.

Gæðaráð hafi nefnt ýmsa góða styrkleika og góða starfshætti, til dæmis nýjungar í kennsluaðferðum og kennslutækni, verkefnamiðaða kennslu sem einkennist af hópavinnu nemenda, stuðningi nemenda við hvern annan og öflugu stuðningsumhverfi á háskólasvæðinu á Bifröst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×