Innlent

Nýju íslensku milljónamæringarnir fundnir

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Allir vinningshafar í Lottóinu síðust helgi hafa nú gefið sig fram. Þrír miðaeigendur voru með allar fimm tölurnar réttar og fá því tæpar fimmtán milljónir hver.

Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að annar vinningshafanna hafi keypt miða fyrir vinkonu sína og keypt fjórar raðir í sjálfvali fyrir sig í leiðinni. Þá hafi hann ekki tekið eftir því að vinningstölurnar væru á miðanum um kvöldið.

Vinkona hans fór þó aftur yfir miðana og hringdi í hann um leið. „Vinningshafinn varð að sjálfsögðu himinlifandi en hann hefur verið á leigumarkaði undanfarin ár og ætlar nú að fjárfesta í húsnæði og fara af leigumarkaðinum.“

Eigendur þriðja vinningsmiðans hafa búið við þröngan fjárhag undanfarin ár, samkvæmt Íslenskri Getspá. Þau hafi þó náð að koma sér af leigumarkaði nýlega og keypt eldra húsnæði sem þarfnist mikilla lagfæringa.

„Hjónin hafa sjálf unnið að því að endurbæta húsnæðið hægt og rólega eftir því sem efnahagurinn hefur leyft. Þessi vinningur gerir þeim nú kleyft að flýta þeim framkvæmdum ásamt því að vera góður öryggispakki fyrir hjónin næstu árin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×