Innlent

Andlega veikur fangi fær enga sérmeðferð á Litla-Hrauni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Páll Winkel, fangelsismálastjóri.
Páll Winkel, fangelsismálastjóri. vísir/andri marinó
Erlendur karlmaður sem er með Asperger-heilkenni, athyglisbrest og ofvirkni fær enga sérmeðferð á Litla-Hrauni þar sem hann sætir nú gæsluvarðhald.

Ástand mannsins er ekki talið gera hann ósakhæfann en fangelsismálastjóri segir það verulega í þyngjandi fyrir menn að sitja í einangrun, sérstaklega fyrir þá sem glíma við geðræn vandamál.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir stöðu geðheilbrigðismála á Litla-Hrauni slæma.

„Þeir fá sömu meðferð og aðrir gæsluvarðhaldsfangar. Meginatriðið er hins vegar það að íslenska ríkinu ber að tryggja þessum einstaklingum viðunandi geðheilbrigðisþjónustu en staðan er bara þannig að það hefur verið vonlaust að fá geðlækna til starfa á Litla-Hraun.“

Páll segir að fullheilbrigðir menn eigi erfitt með að höndla gæsluvarðhald en það felur í sér einangrun í 23 klukkustundir á sólarhring. Gæsluvarðhaldsfangar fá klukkutíma útivist á hverjum sólarhring en dúsa þess á milli í fangaklefa sínum.

„Þetta er alveg hrikalega íþyngjandi og hrikalega erfitt mörgum. Fullheilbrigðir menn eiga bágt með þetta þá geturðu ímyndað þér þegar menn eru að glíma við andleg eða líkamleg veikindi. Auk þess eru þetta saklausir menn, þetta eru einstaklingar sem er ekki búið að dæma í fangelsi.“

Páll vonast til að staðan muni batna þegar nýtt fangelsi opnar á Hólmsheiði en gæsluvarðhaldsklefar verða færðir þangað.

„Það verður gerð úttekt á heilbrigðisþjónustu í nýja fangelsinu og það þarf að gera það fyrir öll fangelsin. Það stendur til og það er vinna í ráðuneytunum núna við það að kortleggja heilbrigðisþjónustu við fanga og ég er á ákaflega ánægður með það. Við erum á réttri leið með þetta en þetta hefur verið hörmunarástand enda ýmsar alþjóðlegar stofnanir sem hafa gert athugasemdir við stöðu mála.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×