Innlent

Smyglmál í Skógafossi enn óupplýst

Sveinn Arnarson skrifar
Enn er óupplýst fíkniefnasmygl í Skógafossi í júní síðastliðins þegar tæp þrjú kíló af kókaíni fundust í bakpoka í einum gámi skipsins.

Rannsókn málsins hefur dregist nokkuð í rannsókn og gengur afar hægt að sögn lögreglu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var verklagsreglum tollstjóraembættisins ekki framfylgt þegar efnin fundust.

Þegar fíkniefni finnast við komuna til íslands er það verklag viðhaft að tryggja að rannsóknarhagsmunir spillist ekki, tryggja nánasta umhverfi og gera lögreglu viðvart. Fíkniefnin fundust í gámi, þar sem bátsmenn Skógafoss geyma verkfæri sín, klukkan rúmlega tvö um nóttina.

Einn heimildarmanna Fréttablaðsins sagði að öllum bátsmönnum á staðnum hefði verið sagt að fíkniefni hefðu fundist um borð án þess að nokkur lögregla kæmi á vettvang.

„Við förum reglulega yfir allt verklag og hvernig við vinnum okkar vinnu þegar fíkniefni finnast á okkar svæði,” segir Kári Gunnlaugsson yfirtollvörður.

„Við gerðum það einnig sérstaklega eftir þessa leit. Fíkniefnin finnast þarna um nóttina og rannsóknarlögreglan er ekki tiltæk strax þarna um nóttina.“

Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður deildar lögreglunnar sem rannsakar skipulagða glæpastarfsemi og fíkniefnamál, segir þetta mál hafa dregist nokkuð í rannsókn og það gangi of hægt. 

Aldís vill þó ekki meina að rannsókn málsins sé komin í eitthvert öngstræti. 

„Við höfum sent rannsóknargögn utan til greiningar og bíðum eftir niðurstöðum úr þeim. Rannsókn málsins gengur hægt. Ef það er satt að starfsmenn tollstjóraembættisins hafi ekki unnið eftir fyrir fram ákveðnum verklagsreglum er það ekki til þess að hjálpa til við rannsókn málsins,“ segir Aldís.

Allir bátsmenn hafa verið teknir í skýrslutöku vegna málsins. Enn hefur enginn verið handtekinn eða færður í gæsluvarðhald né fengið réttarstöðu grunaðs manns i málinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×