Innlent

Hælisleitanda synjað um áheyrn í gær

Snærós Sindradóttir skrifar
Mehdi Pedarsani mynd/aðsend
Mehdi Pedarsani mynd/aðsend
„Hann á yfir höfði sér fangelsisdóm og trúarlegar ofsóknir ef hann fer heim aftur,“ segir á síðunni Ekki fleiri brottvísanir, um Mehdi Pedarsani. Hann er íranskur ríkisborgari sem kom hingað til lands fyrir ári sem hælisleitandi.

Í gær fékk Mehdi synjun frá kærunefnd útlendingamála um að málið hans yrði tekið til efnislegrar meðferðar hér á landi. Synjunin er veitt á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og verður til þess að innan tíðar verður Mehdi sendur til Noregs. Þaðan verður hann svo líklega sendur til heimalands síns.

Rauði kross Íslands hefur hingað til séð um mál Mehdis. Nú þegar honum hefur verið synjað um efnislega meðferð stendur honum til boða að áfrýja málinu til dómstóla. Rauði krossinn hefur staðfest að við slíkar aðstæður sé hælisleitanda leiðbeint til lögfræðinga sem geta tekið málið að sér.

Á síðunni Ekki fleiri brottvísanir stendur að Mehdi hafi tekið ákvörðun um áfrýjun máls síns. Þá hafi honum verið greint frá því að þrátt fyrir áfrýjunina megi hann eiga von á því að vera sendur úr landi hvenær sem er.

Íran er íslamskt ríki með klerkastjórn. Staða mannréttinda hefur verið gagnrýnd í landinu og íranska ríkisstjórnin sökuð um pyntingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×