Innlent

Vill körfurólu af skólalóð

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sjö ára drengur tognaði í baki þegar svokölluð körfuróla, sem sex önnur börn sátu í, lenti á honum þegar hann var að leik á skólalóð fyrir skemmstu. Móðir drengsins telur mikla slysahættu vera af rólum af þessum toga og vill að þær verði fjarlægðar af skólalóðum grunn- og leikskóla.

Í gær greindum við frá því að svokallaðar körfurólur hafi valdið tveimur alvarlegum slysum hér á landi að undanförnu. Samskonar slys hafa einnig orðið í öðrum Evvrópuríkjum, þar af eitt banaslys.

Körfurólur eru margvíslegar en þær eru lögleg leikvallatæki og uppfylla staðla leikvallareglugerða. Rólurnar njóta mikilla vinsælda og eru á fjölmörgum leikvöllum og skólalóðum, en þær eru bæði framleiddar hér á landi og erlendis. Slysið sem varð í sumar þar sem ungur drengur hryggbrotnaði varð í rólu sem framleidd var erlendis en evrópsk nefnd vinnur nú að því að endurskoða staðla yfir allar samskonar rólur.

Sjö ára drengur, Gunnleifur Orri, tognaði í baki eftir að hafa orðið fyrir körfurólu fyrir skemmstu. 

„Það voru sex krakkar í rólunni og hann er einn af tveim sem eru að ýta. Hann lendir í því að renna undir róluna þegar hann ýtir af öllu afli, fær róluna svo í bakið og í hökuna þegar hann reisir sig upp og er að reyna að koma sér á fætur. Hann lendir það illa á bakinu að hann tognar illa á baki og fær vægt höfuðhögg,“ segir Hildur Einarsdóttir móðir Gunnleifs. 

Hildur skrifaði um málið á Facebooksíðu sína eftir að hafa farið með son sinn á bráðamóttöku og skapaðist heilmikil umræða um málið. Til að mynda er greint frá því að sex ára barn hafi lærbrotnað eftir að hafa fengið samskonar rólu á sig. Hildur segir hjúkrunarfræðingur skólans haft orð á því við hana að flest þeirra slysa sem verði á skólalóðinni mætti rekja til rólunnar. Hún vill að rólan verði fjarlægð. 

„Það bara hljóta að vera til leiktæki sem hentar betur, ég trúi ekki öðru,“ segir Hildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×