Innlent

Með fölsuð vegabréf í leit að öryggi

ingvar haraldsson skrifar
koma til landsins Flestir þeirra sem hafa verið með fölsuð skilríki á Keflavíkurflugvelli hafa verið að koma frá Svíþjóð.
koma til landsins Flestir þeirra sem hafa verið með fölsuð skilríki á Keflavíkurflugvelli hafa verið að koma frá Svíþjóð. fréttablaðið/andri marínó
„Það er aldrei neitt annað en örvæntingin sem stýrir för og þráin eftir öryggi og skjóli,“ segir Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, um þá hælisleitendur sem stöðvaðir eru á leiðinni hingað til lands með fölsuð skilríki. Það sem af er þessu ári hefur lögreglan í Leifsstöð stöðvað 29 manns ýmist með fölsuð vegabréf eða vegabréf annarra. Af þessum 29 ætluðu 22 áfram til annarra landa.

Þar af hafa 17 sótt um hæli hér á landi en 16 verið ákærðir og hlotið fangelsisdóm fyrir. Rauði krossinn hefur bent á að fangelsun hælisleitenda vegna skjalafals megi túlka sem brot á flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins
„Eðli orðsins flóttamaður er einhver sem er á flótta af því hann upplifir sjálfan sig eða fjölskyldu sína í lífshættu. Ef þú þarft að leita allra leiða til að komast úr brennandi húsi t.d., þá ertu ekki að setja spurningarmerki við það þótt þú farir út um stiga sem á venjulega ekki að nota. Það er kannski það sama ef þú ert á flótta, þá leitar þú væntanlega allra leiða til að komast burt og myndir þá jafnvel ekki setja fyrir þig að komast yfir skilríki sem þú veist ekki hvort eru lögleg eða ekki,“ segir Björn.

Hann bendir þó á að samkvæmt drögum að lagafrumvarpi um útlendinga sé gert ráð fyrir að hætt verði að refsa hælisleitendum fyrir skjalafals og því fagni Rauði krossinn.

Eiríkur H. Sigurjónsson, rann­sóknar­lögreglumaður hjá Flugstöðvardeild Lögreglustjórans á Suðurnesjum, bendir á að ellefu af þeim sautján sem sótt hafa um hæli hafi sótt um hæli áður á Schengen-svæðinu. „Þá veltir maður fyrir sér tilgangi Dyflinnarsamstarfsins. Þetta er svolítið íþyngjandi fyrir Evrópu í heild sinni að fólk geti farið á milli landa og sótt um hæli á nýjum og nýjum stað þótt vissulega þurfi maður að hafa í huga réttindi þessa fólks og aðstæður,“ segir hann. „Það kannski skýrir að einhverju leyti af hverju við erum með tiltölulega fáa sem fá stöðu flóttamanns,“ segir Eiríkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×