Enski boltinn

Clyne: Þurfum að láta United finna fyrir okkur frá fyrstu mínútu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Clyne er búinn að spila gegn Arsenal á útivelli.
Clyne er búinn að spila gegn Arsenal á útivelli. vísir/getty
Nathaniel Clyne, bakvörður Liverpool, segir að sínir menn megi ekki gefa Manchester United neitt pláss þegar liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Clyne, sem kom frá Southampton fyrir 12,5 milljónir punda í sumar, er að fara að spila sinn fyrsta leik sem leikmaður Liverpool á milli þessara miklu erkifjenda.

„Við þurfum að anda ofan í hálsmálið á þeim frá byrjun. Þeir mega ekki fá neitt pláss og svo getum við refsað með gæðunum okkar fram á við,“ segir Clyne í viðtali við heimasíðu Liverpoo.

„Við þurfum að leggja mikið á okkur, taka frumkvæðið í leiknum og mæta þeim í þeirra leik. United má ekki fá að senda boltann á milli sín eins og það vill gera.“

Clyne er virkilega spenntur fyrir því að taka þátt í þessum stórleik. „Að spila svona leiki er ástæðan fyrir því að ég fór til Liverpool,“ segir hann.

„Það var yndislegt að fá þrjú stig á Old Trafford með Southampton líka. Við spiluðum mjög vel, en það þarf að spila mjög vel til að vinna United á Old Trafford,“ segir Nathaniel Clyne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×