Körfubolti

Serbar með lygilega skotnýtingu gegn Íslandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tröllkarlinn Raduljica skoraði 13 stig fyrir Serba í dag.
Tröllkarlinn Raduljica skoraði 13 stig fyrir Serba í dag. vísir/valli
Sem kunnugt er vann Serbía 29 stiga sigur, 93-64, á Íslandi á Evrópumótinu í Berlín í dag.

Íslensku strákarnir, sem töpuðu naumlega fyrir Þýskalandi og Ítalíu í fyrstu tveimur leikjum sínum á EM, héngu lengi vel í serbneska liðinu en leiðir skildu í 3. leikhluta sem Serbar unnu 25-16.

Serbarnir sýndu á löngum köflum hversu megnugir þeir eru og hvers vegna margir spá þeim sigri á EM.

Lærisveinar Aleksandar Dordevic voru mjög skilvirkir í sóknarleiknum í dag en skotnýting þeirra inni í teig var lygileg, eða 79%. Á meðan settu íslensku strákarnir aðeins niður 38% skota sinna inni í teig.

Serbar skoruðu úr 26 af 33 skotum sínum inni í teig en enginn leikmanna þeirra var með með undir 50% skotnýtingu í leiknum. Þriggja stiga nýtingin var heldur ekkert slot en serbnesku leikmennirnir settu niður átta þrista í 20 tilraunum, sem gerir 40% skotnýtingu.

Þá gáfu Serbarnir 32 stoðsendingar í leiknum en ekkert lið hefur gefið jafn margar stoðsendingar í einum leik á mótinu til þessa.

Dordevic náði líka að dreifa álaginu vel í dag en allir 12 leikmennirnir á skýrslu fengu að spila og allir komust þeir á blað.

Nemanja Nedovic var stigahæstur í liði Serbíu með 15 stig en næstur kom miðherjinn tröllvaxni Miroslav Raduljica með 13 stig.

Bakverðirnir Milos Teodosic og Bogdan Bogdanovic gáfu flestar stoðsendingar í liði Serba, eða sex hvor.

Serbía mætir Tyrklandi og Ítalíu í tveimur síðustu leikjum sínum í B-riðli.


Tengdar fréttir

Tony Parker orðinn sá stigahæsti í sögu EM

Tony Parker, bakvörður franska landsliðsins og NBA-liðsins San Antonio Spurs, varð í gær stigahæsti leikmaður úrslitakeppni Evrópumótsins frá upphafi.

Pavel: Reynum að vera eins pirrandi og við getum

"Við vissum alveg að þetta gat líka gerst. Þessar lokatölur eru kannski það sem flestir bjuggust fyrir fram.,“ sagði Pavel Ermolinskij, eftir tapið á móti Serbíu í dag. Íslenska liðið lék þarna sinn þriðja leik á Evrópumótinu og varð að sætta sig við 29 stiga tap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×