Körfubolti

Ragnar: Þurfum ekki að skammast okkar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar Nathanaelsson vel peppaður á bekknum í dag.
Ragnar Nathanaelsson vel peppaður á bekknum í dag. vísir/valli
Ísland tapaði með 29 stiga mun gegn Serbíu, 93-64, í þriðja leik liðsins á EM 2015 í körfubolta í dag.

Ísland hékk lengi vel í serbneska liðinu sem komst í úrslitaleikinn á HM í fyrra, en þeir voru of sterkir undir lokin.

„Þetta var vissulega erfitt. Þeir eru með gríðarlega sterkt lið, eitt það sterkasta í Evrópu,“ sagði risinn Ragnar Nathanaelsson við Vísi eftir leikinn.

„Í eitt af fáum skiptum var ég að mæta mönnum sem eru jafn stórir og ég. Það var nýtt en virkilega gaman samt sem áður.“

Serbarnir gáfu ekkert eftir í dag og mættu ákefð íslenska liðsins.

„Þeir spila mjög fastan bolta sem við ættum samt að vera vanir. Þeir voru sterkir í dag. Við héldum í þeim lengi, en svo voru þeir sterkari á lokasprettinum. Við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir það. Þetta er virkilega sterkt lið með góða leikmenn,“ sagði Ragnar sem náði ekki að skora í leiknum þrátt fyrir að fá nokkrar tilraunir í sömu sókninni.

„Þetta var bara einn af þessum dögum. Boltinn skoppaði bara á hringnum sama hvað ég reyndi. En ég fékk allavega nokkur fráköst. Ég get huggað mig við það,“ sagði risinn kátur, en hvernig er fyrir unga manninn að vera að spila á EM?

„Það er gjörsamlega ólýsanlegt að vera hérna ásamt þessu frábæra liði, í kringum þessa flottu leikmenn og spila fyrir þessa æðislegu stuðningsmenn sem hvetja okkur allan tímann eins og brjálæðingar. Þetta er þvílík upphitun, miklu meiri en ég bjóst nokkurn tíma við,“ sagði Ragnar Nathanaelsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×