Innlent

Þurfum að endurheimta traust

Linda Blöndal skrifar
Rúmlega 190 manns á Íslandi hafa hætt að styrkja götubörn ABC barnahjálpar vegna deilna innan samtakanna. Guðrún Margrét Pálsdóttir, formaður og stofnandi ABC hefur sagt af sér og hætt störfum fyrir félagið. Hún segir það persónulegt áfall fyrir sig að erfiðleikar undanfarið hafi bitnað á starfinu. 

Guðrún Margrét, hefur sagt af sér formennsku hjá ABC  hjálparstarfi á Íslandi og sagt alfarið skilið við samtökin. Þá ákvörðun tók hún fyrir fáeinum dögum. Guðrún stofnaði ABC fyrir 27 árum ásamt nokkrum öðrum og hefur starfað þar alla tíð, mest í sjálfboðavinnu, við að koma upp skólum fyrir fátæk götubörn í fátækum löndum. 

Uppsögn rakin til skólans í Kenya

Málið tengist brottvikningu Þórunnar Helgadóttur, starfsmanns ABC skólans í Kenya. Þórunn taldi sig beitta órétti og stjórnar enn skólanum en ABC segir trúnaðarbrest hafa orðið og að Þórunn ætli að sölsa undir sig skólann. Um þetta hefur verið fjallað í fjölmiðlum undanfarið og alvarlegar ásakanir komið fram í málinu. Guðrún segist vilja axla ábyrgð með því að hætta.

Starf sem byggir á trausti

„Mér finnst rétt að gera þetta á þessum tímapunkti til að endurheimta trúverðugleika starfsins. Ef einhver ber ábyrgð á þessu máli þá er það ég, fyrir utan svo Þórunni", sagði Guðrún í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. „Ég hefði átt að átta mig á hlutunum fyrr". Aðspurð hvort hún hafi trú á því að ABC muni endurheimta traust þeirra tæplega tvö hundruð sem hafa hætt stuðning við börnin, segir Guðrún vona það og sé að stíga til hliðar svo þannig megi verða. „Þetta starf byggir á trausti. Það er aðal ástæðan fyrir afsögn minni. Ef fólk hefur misst trúa á starfinu útaf því að við höfum ekki komið í veg fyrir að þessi staða skapaðist ytra þá ber ég ábyrgð", segir hún.

„Ég var í stjórn þarna úti og í því liggur ábyrgð mín líka. Að hafa ekki gengið harðar í því að fá fram upplýsingar um hvað var að gerast og krefjast stjórnarfunda eins og reglur segja til um".

Óljós staða í Kenýa

Eftirlitsaðili ytra skoðar nú fjárreiður skólans í Kenýa og hver beri réttmætt tilkall til hans, segir Guðrún og að eining sé meðal starfsmanna ABC. Þórunn sagði hins vegar í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í kvöld í dag að engin slík rannsókn væri í gangi og alveg ljóst að það sé hún sem reki skólann. Það sýni allir pappírar fram á.

Níu þúsund börn í skólunum

ABC veltir á þriðja hundrað milljón króna á ári og stuðningsmenn barna, mest á Íslandi, eru 5.200. Þó þeim hafi fækkað eru skólapláss barnanna tryggð, segir Kristín. Alls eru níu þúsund börn í skólum ABC í átta löndum.

Guðrún Margrét sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í vikunni þar sem segir meðal annars:

„Frá því ég var með í að stofna ABC barnahjálp ásamt góðu fólki fyrir 27 árum hef ég verið í fullu starfi fyrir samtökin, þar af í 23 ár sem sjálfboðaliði.  Hugsjón mín og ABC hefur alla tíð verið sú að gefa fátækum börnum tækifæri til menntunar, ólæsum kost á að verða læsir og að hjálpa götubörnum til nýs lífs með því að veita þeim heimili og menntun. Í dag get ég glaðst yfir því góða starfi sem unnið hefur verið á vegum ABC í þágu fátækra barna víða um heim í öll þessi ár. Þetta starf þarf að varðveita og treysta þannig að börnin sem ABC hefur tekið undir sinn verndarvæng haldi áfram að fá þann stuðning sem þeim er nauðsynlegur og að hægt verði að styrkja fleiri fátæk börn til betra lífs.

Ég er afar þakklát fyrir nýja stjórnarformanninn, stjórn, framkvæmdastjóra og starfsmenn ABC. Allt er þetta úrvalsfólk sem ég ber fullt traust til. Ég er einnig mjög þakklát fyrir samstarfið við Norrænu barnahjálpina þar sem ég sit áfram í stjórn við stefnumótun og mun fylgjast með hugsjóninni ná fram að ganga. Ósk mín er sú að ABC barnahjálp fái allan mögulegan stuðning og fólk láti mistök mín ekki aftra sér frá því að gerast stuðningsaðilar barna í gegnum ABC barnahjálp.

Með þakklæti fyrir allan stuðning við starf ABC á undangengnum árum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×