Innlent

Kennarasambandið gaf eftir í deilum vegna veggjalúsar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Erla Stefanía Magnúsdóttir og bitin á dóttur hennar.
Erla Stefanía Magnúsdóttir og bitin á dóttur hennar. Vísir
Kennarasamband Íslands og leikskólastjórinn Erla Stefanía Magnúsdóttir hafa komist að samkomulagi vegna kostnaðar sem Erla Stefanía lagði út fyrir vegna meindýraeyðis auk þess sem dóttir hennar borgaði læknis- og lyfjakostnað vegna bita sem voru enn að koma upp tíu dögum síðar.

Veggjalús hafði gert vart við sig í sumarhúsi sem Erla Stefanía tók á leigu í gegnum Kennarasambandið. Dóttir hennar og tengdarsonur héldu í sumarbústaðinn á Glaðheimum á Blönduósi en flúðu þegar þau sáu að allt var morandi í skordýrum sem reyndust vera veggjalýs.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 á mánudaginn þar sem Erla Stefanía lýsti undrun sinni á því að hvorki Kennarasambandið né Lárus Jónsson, eigandi sumarbústaðanna, væri tilbúinn að endurgreiða henni útlagðan kostnað.

Þórður Á. Hjaltested, formaður Kennara-sambands Íslands
Erla Stefanía segir að Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambandsins, hafi komið á fund sinn sem hafi verið mjög góður.

Fengist hafi samþykki hjá Sjóvá að tjónið yrði bætt sem nemur, að sögn Erlu Stefaníu, um 140 þúsund krónum. Þótt það séu litlir peningar fyrir Kennarasambandið sé það umtalsverð upphæð fyrir einstakling.

„Þetta er búin að vera svolítil rússíbanareið,“ segir Erla Stefanía í samtali við Vísi. Hún sé þó ánægð með viðbrögð KÍ og niðurstöðuna.

Samninginn er hún með á borðinu og átti bara eftir að skrifa undir síðdegis. Það ætlaði hún að gera án nokkurs vafa.


Tengdar fréttir

Fengu veggjalús í sumarbústað Kennarasambandsins

Síðustu páska leigði Erla Stefanía Magnúsdóttir sumarbústað á Blönduósi ásamt dóttur sinni og tengdasyni, sem fóru norður sólarhring á undan henni. Þau urðu skjótt vör við að í húsinu var allt morandi í skordýrum sem reyndust vera veggjalýs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×