Innlent

Nýtt útlit Fréttablaðsins í dag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Við viljum nýta okkur þá sérstöðu sem Fréttablaðið hefur, sem langvíðlesnasta dagblað landsins,“ segir Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365 miðla .  Útlitinu hefur verið breytt, svo og skipulagi og niðurröðun í efnisflokka en þó þannig, að lesendur geti gengið að sínum uppáhaldssíðum vísum. Munur milli blaðhluta er skýrari. 

„Þótt auðvelt sé að nálgast fréttaefni og nýjustu fréttir berist hratt í netheimum, halda dagblöð sinni sérstöðu. Á blöðum gefst betri tími til að vinna fréttir og annað efni og kröfur um framsetningu og efnistök eru í samræmi við það. Það á enn frekar við um ljósmyndir og grafískar útfærslur. Í góðri blaðagrein, þarf þetta þrennt að haldast í hendur. Þannig lýtur dagblað strangari lögmálum en netmiðlar.   Í því felast tækifæri fyrir okkur og þess vegna breytum við.“

Á forsíðunni er fréttaljósmyndinni gert enn hærra undir höfði. Á eftir fréttum og skoðun, er sportið, með fréttum af íþróttum. Þar á eftir eru tímamót og menning, en í síðari efnisflokknum gefur að líta alla þá viðburði sem eru á döfinni, þar á meðal auglýsingar bíóhúsanna og dagskrá sjónvarpsstöðvanna. Lífið, sem er nú líkara útliti tímarits en dagblaðs, er á sínum stað og setur punktinn yfir i-ið.

Alltaf er hægt að nálgast Fréttablaðið með Fréttablaðs-appinu og á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×