Innlent

Taka undir áskorun um gjaldfrjálsan skóla

Svavar Hávarðarson skrifar
Algengt er að foreldrar kaupi skólagögn fyrir um 7.000 krónur fyrir hvert barn – en skólataska og fleira er þá ótalið.
Algengt er að foreldrar kaupi skólagögn fyrir um 7.000 krónur fyrir hvert barn – en skólataska og fleira er þá ótalið. Fréttablaðið/Vilhelm
Heimili og skóli – landssamtök foreldra taka undir áskorun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi um gjaldfrjálsan grunnskóla á Íslandi. Fjölskyldur með börn á grunnskólaaldri greiða töluverðar upphæðir vegna kaupa á námsgögnum.

Eins og Fréttablaðið greindi frá á föstudag sendu samtökin Barnaheill – Save the Children á Íslandi frá sér áskorun til sveitarfélaga og ráðamanna og  leggja til að 31. grein grunnskólalaga verði breytt í því augnamiði að tekið verði fyrir alla gjaldtöku og þannig verði grunnskólinn í raun gjaldfrjáls eins og kveðið er á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hrefna Sigurjónsdóttir
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, segir í skriflegu svari til Fréttablaðsins að samtökin taki undir áskorunina og fagni frumkvæði Barnaheilla, því líkt og segi í áskoruninni eiga öll börn rétt á grunnmenntun án endurgjalds samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland hefur lögfest. Þar er jafnframt kveðið á um að ekki megi mismuna börnum sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra, svo sem vegna efnahags. Lengi hefur tíðkast að foreldrar fá senda innkaupalista frá skólunum um kaup á námsgögnum, sem samtökin bæði telja ganga þvert á lög og alþjóðasamþykktir.

Hrefna nefnir að talsverður kostnaður geti leynst í þessum innkaupalistum. „Ef skoðaðir eru t.a.m. innkaupalistar á netsíðum þá getur kostnaður þar verið á bilinu 2.500-7.500 kr. fyrir barn í 1. bekk. Þá er skólataska ekki meðtalin. Þegar fleiri en eitt barn eru í fjölskyldunni eykst kostnaðurinn. Þá má einnig velta fyrir sér kostnaði við skólamáltíðir og frístundaheimili sem eru líka rekin af sveitarfélögunum.“

Í lögum um grunnskóla frá 2008 (nr. 91, 31. gr) kemur fram að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja þá eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu. Þó kemur fram í lögunum að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír, án þess að í raun sé skilgreint hvað persónuleg not þýðir.

„Við tökum undir þann skilning Barnaheilla að öll gögn sem nemandi þarf að nota til skólagöngu sinnar séu í raun hluti af námsgögnum en ekki svokölluð persónuleg gögn. Því ætti skólinn með réttu að útvega þau gögn sem nemandi þarf til að stunda nám sitt,“ segir Hrefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×