Innlent

Viðbúnaður vegna komu hershöfðingja bandaríska flughersins í Evrópu og Nato

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður var vegna komu Gorenc til landsins.
Mikill viðbúnaður var vegna komu Gorenc til landsins. Mynd/Ásgrímur Sigurðsson
Frank Gorenc, hershöfðingi bandaríska flughersins í Evrópu og NATO, verður á Íslandi í dag og á morgun til þess að funda með íslenskum ráðamönnum og heimsækja staði er tengjast varnarmálum landsins.

Gorenc lenti á Reykjavíkurflugvelli í morgun og var mikill viðbúnaður vegna komu hans til landsins, vegfarendur við Hringbraut hafa ef til vill tekið eftir því að um níu í morgun var götum lokað og fjölmennt fylgdarlið fylgdi Gorenc á sinn fyrsta áfangastað í Íslandsheimsókninni.

Í tilkynningu frá sendiráði Bandaríkjanna segir að Gorenc komi til með að þakka íslenskum stjórnvöldum sérstaklega fyrir rekstur loftvarnakerfa á Íslandi sem gegna lykilhlutverki í sameiginlegum vörnum Bandaríkjanna og NATO á meðan heimsókninni stendur. 

Segja heimsóknina sýna fram á mikilvægi samvinnu ríkjanna

„Heimsóknin sýnir fram á mikilvægi samvinnu Bandaríkjanna og Íslensku Landhelgisgæslunnar og sýnir einnig hversu stóru hlutverk Landhelgisgæslan hefur að gegna við að tryggja öryggi Íslands,“ segir í tilkynningunni. Þar er einnig vitnað í hershöfðingjann sjálfan en hann er ánægður með að fá að koma til Íslands.

„Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að heimsækja Ísland og dást að náttúrunni.  Ég er stoltur að fá tækifæri til að vinna með svona öflugum bandamanni.  Máttur Íslands og þýðingarmikið aðgengi landsins veitir NATO öryggi sem er til fyrirmyndar fyrir bandamann sem leggur sitt að mörkum hvað varðar framtíðarsýn Evrópu í heild sinni, frjálsrar álfu þar sem friður ríkir,“ sagði Gorenc.

Umdeild aðild Íslands

Ísland gerðist stofnaðili að NATO eða Norður-Atlantshafsbandalaginu í apríl 1949. Þátttaka landsins í bandalaginu hefur löngum verið umdeild en bandaríska sendiráðið segir í tilkynningunni Bandaríkin búa við öflugt varnarsamband með Íslandi, bandamanni sínum í NATO.

„Frá árinu 2008 hefur bandaríski loftherinn sinnt lofteftirliti og löggæsluverkefni á Íslandi en slíkt er hluti af skuldbindingu NATO til öryggis- og varnarmála Íslands.“

Ísland hefur undanfarin ár ásamt bandamönnum sínum innan NATO tekið þátt í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi og eins og kunnugt er hefur það endað með því að Rússland setti Ísland á innflutningsbannlista. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu tengist heimsóknin ekki fyrrnefndu „makrílsölubanni“; en Íslendingar flytja mikið af makríl og loðnu til Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×