Innlent

Meintur nauðgari fælir samfanga úr vinnunni

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Að sögn fangans beittu samfangar hans hann kynferðislegu ofbeldi í klefa sínum og í sturtu klefa fangelsisins.
Að sögn fangans beittu samfangar hans hann kynferðislegu ofbeldi í klefa sínum og í sturtu klefa fangelsisins. vísír/stefán
„Í tilviki eins og þessu, þar sem vaknar minnsti grunur um kynferðislega misnotkun innan veggja fangelsisins, er það alltaf tilkynnt til lögreglu. Í varnaðarskyni þá aðskiljum við einstaklinga sem koma að máli,“ segir Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni.

Þar telur fangi sig beittan misrétti með því að einstaklingur, sem hann sakar um að hafa beitt sig kynferðislegri misnotkun, hafi fengið starf á vinnustað hans.

Fyrir um tveimur árum tilkynnti Margrét til lögreglunnar á Selfossi að grunur léki á að umræddur fangi væri beittur kynferðislegri misnotkun af tveimur samföngum sínum. Lögreglan hóf rannsókn á málinu. Mennirnir voru skildir að og hafa ekki verið á sama gangi í fangelsinu síðan.



Fanginn segir samfanga sína hafa beitt hann kynferðislegu ofbeldi í klefa hans og í sturtuklefa.

Margrét Frímannsdóttirvísir/gva
Fékk starf á vinnustað fangans

Á dögunum fékk svo annar meintra gerenda starf á vinnustað fangans á Litla-Hrauni. Út af þessu segist fanginn finna fyrir mikilli vanlíðan. Hann geti ekki unnið með manni sem misnotað hafi hann kynferðislega og hefur hætt að mæta í vinnuna.



Margrét segir að fyrir tveimur árum hafi vaknað grunur við eftirlit starfsmanna og svo hafi aðrir bent á að brot kynnu að vera að eiga sér stað. „Lögreglunni var strax tilkynnt um málið og rannsókn lauk svo því meintur brotaþoli neitaði mjög eindregið að nokkuð hefði átt sér stað,“ segir hún. Hefði brot verið staðfest þá hefðu gerendurnir hins vegar undantekningarlaust verið fluttir í annað fangelsi. 

„Þá eru verkstjórar yfir föngunum allan tímann í vinnunni. Ef fanginn leggur hins vegar fram kvörtun yrði rætt við hann og ákvörðun tekin eftir þörfum.“

Fanginn segist hafa neitað brotunum við skýrslutöku hjá lögreglu vegna ótta við hefndaraðgerðir mannanna.

Fangar hneykslaðir

„Þegar þetta tilvik kom upp þá var ekki búið að breyta reglunum þannig að fangar máttu vera inni á klefum hver hjá öðrum,“ segir Margrét og bætir við að þegar ofbeldi eigi sér stað innan veggja fangelsisins þá sé það oftast inni á klefum þar sem engar öryggismyndavélar eru. 

„Auðvitað er það skerðing á lífsgæðum fanganna að þeir megi ekki vera í klefum hver annars því þeir voru oftast þar bara í saklausum tilgangi. Því miður þá koma upp tilvik sem verða til þess að þetta er bannað.“

Aðrir fangar á Litla-Hrauni sem rætt var við eru hneykslaðir á stöðunni. Burtséð frá því hvernig gangi að sanna brot þá eigi ekki að setja meintan brotamann og fórnarlamb saman í vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×