Innlent

Þrír í gæsluvarðhald: Grunaðir um að leigja íbúð í gegnum Airbnb með stolnu greiðslukorti

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómari féllst á beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að úrskurða mennina þrjá í vikulangt gæsluvarðhald.
Dómari féllst á beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að úrskurða mennina þrjá í vikulangt gæsluvarðhald. Vísir/Valli
Þrír erlendir karlmenn hafa verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa nýtt sér íslensk kreditkortanúmer til að kaupa sér ýmsan varning og þjónustu hér á landi.

Samkvæmt heimildum Vísis eru mennirnir frá Litháen og sagðir hafa notað þessar kreditkortaupplýsingar til að kaupa sér flugfar hingað til lands, leigja sér íbúð í gegnum Airbnb-leigumiðlunina ásamt því að kaupa sér íslenskan varning.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði húsleit í umræddri íbúð síðastliðinn föstudag og voru mennirnir handteknir í kjölfarið, samkvæmt heimildum Vísis.

Hafliði Þórðarsonar, hjá auðgunarbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir mennina ekki hafa verið lengi hér á landi áður en þeir voru handteknir.

Lögreglan átti ekki í teljandi vandræðum með að koma mönnum í Héraðsdóm Reykjavíkur þrátt fyrir Reykjavíkurmaraþonið hafi staðið yfir á sama tíma.Vísir/Daníel
Gæsluvarðhald í miðju maraþoni

Lögreglan fór fram á vikulangt gæsluvarðhald yfir mönnunum þremur og voru þeir leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðinn laugardagsmorgun sem féllst á beiðni lögreglunnar. Þegar mennirnir voru leiddir út úr dómhúsinu við Lækjartorg voru þúsundir samankomnir í miðbænum vegna Reykjavíkurmaraþonsins samhliða því að götum var lokað fyrir akandi vegfarendur.

Hafliði segir þó ekki hafa gengið illa að koma mönnunum í bíl frá fangageymslu lögreglunnar á Hverfisgötu og niður í Héraðsdóm Reykjavíkur.

„Það gekk bara ágætlega, þó það hafi verið traffík,“ segir Hafliði.

Keimlíkt öðrum málum

Þessi rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er keimlík þeim níu málum sem lögreglan á Suðurnesjum hefur haft til meðferðar frá lokum árs 2014 sem varða ætluð fjársvik erlendra manna gagnvart flugfélögum þar sem flugmiðar eru greiddir með stolnum greiðslukortaupplýsingum..

Rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum hefur leitt í ljós að auk greiðslukortanúmera liggja fyrir upplýsingar um korthafa, heimilisföng og jafnvel netföng og símanúmer þeirra. Virðast þessar upplýsingar eiga uppruna sinn af sölusíðum á veraldarvefnum sem hafa orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum og ganga svo kaupum og sölum á veraldarvefnum. Lesa nánar hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×