Innlent

Telja ekki tímabært að lýsa yfir neyðarástandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hluti háskólanema sækir námsefni sitt á netið líkt og þessi gæti verið að gera.
Hluti háskólanema sækir námsefni sitt á netið líkt og þessi gæti verið að gera. vísir/ernir
Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs
„Það er svo erfitt að byggja upplýsta umræðu á sölutölum á nýjum bókum þar sem skiptibókamarkaðir fara fram mikið innan nemendafélaganna. Auk þess eru Facebook-grúppur þar sem bækur ganga kaupum og sölum,“ segir Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Fréttablaðið fjallaði í vikunni um áhyggjur kennara við skólann af því að einungis 40% nemenda við skólann keyptu skyldulesefni sitt nýtt frá Bóksölu stúdenta. „Ég tel að áður en við förum að bregðast við eða kalla þetta yfirborðsnám eða hvað sem við viljum segja eigum við að spyrja nemendur hvort þeir útvegi sér námsefnið,“ segir Aron.

„Mér finnst að við verðum að afla fleiri gagna til að geta lýst yfir neyðarástandi vegna þessa. Það eru léleg akademísk vinnubrögð að fókusera bara á þennan hluta,“ bætir hann við og segir að til þess að tryggja að nemendur séu með skyldulesefni gæti verið snjallt að auka símat og vinna fleiri verkefni upp úr námsefninu.

Nanna Elísa Jakobsdóttir, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta
„Í fyrsta lagi er kannski rétt að taka fram að sölutölur Bóksölunnar eru ekki nægur grunnur til að álykta um hverjir kaupa hvaða bækur og hvort þeir lesi þær,“ segir Nanna Elísa Jakobsdóttir, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS). „Hins vegar er staðreyndin sú að þegar kemur að sumum fögum er bókakostnaður svimandi hár, hann hleypur oft á tugum þúsunda,“ bætir hún við.

„Það veldur oft kvíða á haustin og eftir jól því bókalánið hjá LÍN er einfaldlega ekki í samræmi við raunkostnað,“ segir Nanna.

Hún segir nemendur þá leita ódýrari leiða til að koma höndum yfir námsefnið. Meðal annars með því að kaupa notaðar, eldri bækur, sem hún segir oft nánast alveg eins og fyrri útgáfur. „Það sýnir ekki slæmar námsvenjur eða yfirborðslærdóm að bjarga sér með öðrum leiðum,“ segir Nanna og skorar LÍS á skólayfirvöld og kennara að íhuga stöðu nemenda þegar námskeið eru undirbúin.

María Dóra Björnsdóttir, deildarstjóri náms- og starfsráðgjafar hjá skólanum, segir allar líkur á að nemendur kaupi eða fái lánaðar námsbækur frá öðrum nemendum.

„Síðan heyrir maður af og til að þau séu dugleg að hala niður bókum. Að verða sér úti um þær á einn eða annan hátt á netinu,“ segir María. Hún segir að Bóksala stúdenta muni halda úti skiptibókamarkaði á næstunni í fyrsta skipti í fimmtán ár og geti nemendur þá nálgast ódýrari bækur þar. „Ég er ekki viss um að tölurnar um sölu á nýjum bókum segi alla söguna. En auðvitað gefa þær ákveðna mynd og maður á að velta því fyrir sér hvað þetta þýðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×