Innlent

Náðu mögnuðum myndum af Snæuglu í stórfjölskylduferð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heiðrún telur þau hafa verið í um 60-70 metra fjarlægð frá uglunni.
Heiðrún telur þau hafa verið í um 60-70 metra fjarlægð frá uglunni. Mynd/Heiðrún Tryggvadóttir
Hjónin Heiðrún Tryggvadóttir og Garðar Jónsson á Stóru-Völlum náðu frábærum myndum af Snæuglu þegar þau gerðu sér glaðan dag um helgina. Stórfjölskyldan lagði upp í dagsferð í Þingeyjarsýslunni og sáu þessa líka fallegu Snæuglu.

„Hún var ótrúlega róleg. Hún flaug upp og settist ekki svo langt frá. Vara bara eitthvað að þvælast,“ segir Heiðrún í samtali við Vísi. Vefurinn 641.is birti fyrstur myndir þeirra hjóna um helgina.

Snæuglan tók á flug en settist ekki langt frá.Mynd/Heiðrún Tryggvadóttir
Heiðrún segir fjölskylduna hafa verið á þvælingi á fimm bílum og það hafi óneitanlega kryddað ferðina að sjá ugluna, og ná myndum af henni.

Hún segist sjálf hafa séð Snæuglu áður en aldrei hafi myndavélin verið með í för, fyrr en nú.

„Það er rosalega gaman að sjá hana. Þetta er fallegur fugl.“

Snæugla er stór ugla sem lifir á heimskautasvæðum og svæðum norðan við 60º breiddargráðu allt í kringum Norður-Íshafið. Hún lifir aðalega á læmingjum en þar sem hún lifir ennþá á Íslandi lifir hún á fuglum. Þær eru að sumu leyti farfuglar því þær flytja sig um set eftir æti.

Nánar um Snæuglu hér.

Snæuglan tyllti sér hjá þessum ágæta steini.Mynd/Heiðrún Tryggvadóttir

Tengdar fréttir

Snæugla við Hvalfjarðargöng

Systrunum Auði og Elínu Valdimarsdætrum brá heldur betur í brún þar sem þær óku fram á Snæuglu skammt frá Kjalarnesinu áðan „Við öskruðum upp yfir okkur. Héldum fyrst að þetta væri hauslaus fugl en þegar við komum nær sáum við að þetta var Snæugla," segir Auður Valdimarsdóttir.

Ekki algengt að uglur stilli sér upp fyrir fólk

„Þetta var mjög gaman og afar sérstakt. Ég varð rosalega hissa að sjá ugluna sitja í rólegheitum svona nálægt okkur,“ segir Anna Björg Kristbjörnsdóttir, íbúi í Gerðhömrum í Grafarvogi. Önnu brá heldur betur í brún um þrjúleytið í gærdag þegar hún kom heim til sín og sá branduglu hvíla sig á grindverki hjá heimili hennar. „Við lögðum bílnum og röltum að henni, en hún var mjög spök og lét sér hvergi bregða. Við vorum líklega í um tveggja metra fjarlægð frá henni og hún flaug ekki í burtu fyrr en ljósmyndari Fréttablaðsins smellti af henni myndum. Þá höfum við líklega farið aðeins of nálægt,“ segir Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×