Innlent

Nýnemar gætu orðið af skólavist við Verzlunarskólann ef þeir mæta ekki á skólasetningu

Birgir Olgeirsson skrifar
Verzlunarskóli Íslands.
Verzlunarskóli Íslands. Visir/Vilhelm
Verzlunarskóli Íslands verður settur eftir slétta viku. Fer athöfnin fram í hátíðarsal skólans og er ætlast til að nemendur mæti tímanlega. Á vef skólans er tekið fram að það sé afar mikilvægt fyrir nýnema að mæta, að öðrum kosti geta þeir átt á hættu að verða af skólavist.

„Þetta hefur alltaf verið svona,“ segir Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskólans, í samtali við Vísi um málið og ítrekar að það sé afar mikilvægt fyrir nýnema að mæta á skólasetninguna.  Mikil aðsókn sé í skólann og nemendur enn á biðlistum eftir því að komast inn í hann. „Þegar það er fullt af nemendum sem eru að reyna að komast inn, og foreldrar og nemendur eru liggur við hangandi hér hvern einasta dag, þá er mikilvægt að þeir sem fengu pláss komi strax,“ segir Ingi.

Hann segir skólayfirvöld gera þá kröfu að þeir nemendur sem ekki eru viðstaddir skólasetninguna séu með haldbærar skýringar á fjarveru sinni. Hann segir manntal tekið strax fyrsta daginn þannig að það fer ekki framhjá skólayfirvöldum ef einhver mætir ekki.

Ingi segir að enginn nýnemi hafi misst sætið sitt við skólann vegna þessarar reglu á meðan hann hefur gegnt stöðu skólastjóra hjá Verzlunarskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×