Fótbolti

Skotárás gerð á bíl leikmanns tyrkneska landsliðsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Topal í leik gegn Shaktar á dögunum.
Topal í leik gegn Shaktar á dögunum. Vísir/Getty
Tyrkneska félagið Fenerbahce hefur staðfest að aðili hafi hafið skotárás að leikmanni liðsins, Mehmet Topal, er hann var á leiðinni heim af æfingu. Topal slapp ómeiddur frá atvikinu sem átti sér stað í Istanbul.

Topal var nýkominn af æfingarsvæði Fenerbahce þegar aðilar hófu skothríð í átt að bíl Topal en rúðan í bíl hans var með skotheldu gleri sem bjargaði honum. Náði hann að komast í skjól og hringja á lögregluna en þegar aðstoð kom voru árásarmennirnir farnir á brott.

Topal hefur leikið fyrir Fenerbahce frá árinu 2012 er hann sneri aftur til Tyrklands eftir tvö ár í herbúðum Valencia. Þar áður lék hann fyrir erkifjendur Fenerbahce í Galatasaray. Topal á að baki 49 leiki fyrir Tyrklands hönd.

Er þetta í annað skiptið sem skotið er átt að bifreið með leikmönnum Fenerbahce um borð en í apríl var skotið í átt að liðsrútu liðsins eftir leik gegn Trabzon. Neyddist rútubílstjórinn til þess að leita sér aðstoðar eftir að hafa verið skotinn en leikmennirnir sluppu.

Var deildarkeppnin í Tyrklandi stöðvuð í viku eftir atvikið í apríl en tyrkneska knattspyrnusambandið hefur ekki tjáð sig um málefni Topal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×